Neytandi vikunnar er Áslaug Adda Sigurðardóttir verkefnastjóri hjá Reitum.
Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst?
Það sem við eyðum í matvöruverslunum mánaðarlega getur verið misjafnt en þó áætla ég að það falli undir 100 þúsund krónurnar þar sem við erum bara tvö í heimili.
Ég versla helst í Bónus og Hagkaup. Stórinnkaupin geri ég í lágvöruverslunum og þó að Bónus verði oftast fyrir valinu þykja mér aðrar lágvöruverslanir hafa verið að vinna á upp á síðkastið. Ég er mjög ánægð með úrval á sælkeravörum í Hagkaup.
Mér finnst frábært að sjá uppsveiflu hjá þeim verslunum sem bjóða upp á heimsendingu. Þetta er hentug lausn og sérstaklega núna á tímum heimsfaraldurs.
Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi?
Ég myndi vilja sjá íslenskum grænmetisbændum gert kleift að veita okkur meira úrval af innlendu grænmeti á betra verði, hvort sem það væri með lækkuðu raforkuverði eða með ívilnunum til þeirra.
Ég passa upp á að láta grænmetið mitt endast og ég nota ráð sem mér var kennt þegar ég sótti tíma hjá JSB sem er að setja grænmeti sem þarf að fríska upp á í ískalt vatnsbað. Salat, kál, gulrætur og fleira grænmeti verður eins og nýtt eftir 20 mínútna dýfu. Ég skræli gulrætur og geymi í skál af vatni í ísskápnum til að geta gripið í.
Þegar mér tókst loksins að baka almennileg gerbrauð með góðri hjálp frá Nönnu Rögnvaldardóttur fannst mér það skemmtileg viðbót við matseldina og gott sparnaðarráð.
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?
Ég er orðin meðvitaðri um vöruverð og fylgist vel með sveiflum í vöruverði.
Mér þykir verðlagning á vörum of há sem við sjáum á samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. Ég geri alltaf verð- og gæðasamanburð þegar ég kaupi dýra hluti.
Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er?
Ég legg fyrir og vel hagstæðustu ávöxtunarleiðirnar hverju sinni.
Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán?
Þó að ég telji að óverðtryggð lán séu hagstæðust myndi ég íhuga að taka blandað lán ef ég væri að fara út í lántökur.
Hvaða mál og málaflokka telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á?
Heilbrigðiskerfið þarf að efla til muna og styrkja stoðir þess með varanlegum hætti.
Verandi amma sé ég líka að það er þörf á að fjölga leikskólaplássum.
Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli?
Náttúran og umhverfisvernd skipta mig miklu máli og ég vil sjá bæði landgræðslu og skógrækt eflda hér á landi.
Það þarf að gera okkur auðveldara að huga að orkuskiptum þannig að við getum fært okkur frá olíunni og yfir í rafmagnið. Það þarf að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla og við þurfum að vera meðvitaðri um notkun einkabílsins.
Annað sem þú vilt taka fram?
Mér finnst mikilvægt að skipuleggja innkaupin og safna fyrir dýrari hlutum ef kostur er.