Dómsmálaráðherra hefur í hyggju að senda lögreglustjórann á Suðurnesjum til Vestmannaeyja, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.
„Ég tjái mig ekki um það,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Fréttablaðið.
Blaðið hefur heimildir fyrir því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hafi tilkynnt Ólafi að hann verði fluttur til embættis lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Er Áslaug sögð að hafa sent Ólafi bréf þar sem fram kemur að flutningur hans til Eyja taki gildi um mánaðarmótin, að því gefnu að hann samþykki breytinguna. Í fréttinni segir að einfaldara geti verið fyrir ráðherra að gera starfslokasamning við Ólaf kjósi hann að hafna þessu. Eins og fyrr segir vill Ólafur ekki tjá sig um málið. Áslaug Arna hefur ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins um málið.
RÚV greindi nýverið frá því að Áslaug Arna hefði á borði sínu kvartanir vegna framgöngu Ólafs í starfi. Tveir starfsmenn embættisins eru sagðir hafa leitað til trúnaðarmanns, sem bar erindi þeirra til ráðherrans í maí síðastliðnum.
Arndís Bára Ingimarsdóttir gegnir stöðu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum tímabundið, eftir að Páley Bergþórsdóttir lét af embættinu í sumar þegar hún var skipuð lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.