Ásmundir Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins var ekki par ánægður með fyrsta þátt Verðbúðar sem Vesturport stendur að og sýndur var í gær í Ríkissjónvarpinu. Sakar hann Rúv um landsbyggðarrasisma. Annað er hægt að segja um álit Gunnars Smára Egilssonar á þættinum þó hann hafi efasemdir um að ráðamenn fái á baukinn í þættinum. Mismunandi álit þeirra tveggja kemur kannski fæstum á óvart enda úr sitthvorri áttinni, pólitískt séð.
Ásmundur þekkir landsbyggðina betur en flestir Íslendingar, ef marka má þær endurgreiðslur sem hann fær fyrir akstur um sveitir landsins á ári hverju en hann hefur verið aksturskóngur Alþingis allar götur síðan hann komst á þing árið 2013. Skrifaði hann færslu á Facebook í gærkvöldi þar hann jós úr bikar vanþakklætis yfir þáttunum.
Sjá einnig: Ásmundur fengið rúmar 33 milljónir í ökustyrk – Enn og aftur ökukóngur þingsins
„Það er ekki oft sem ég sest við sjónvarpið. Gerði það þó í kvöld og horfði á Verbúðina á Ríkisútvarpinu. Ég verð að segja eins og er að ég er orðinn leiður á þessum landsbyggðarrasisma höfuðborgarbúa og Ríkisútvarpsins.
Í þessu framlagi ríkisútvarpsins til menningarinnar í landinu er dregin upp sú mynd af fólki í sjávarplássi að þar sé meira og minna um undirmálsfólk. Topp skipstjórar séu drykkjusjúklingar sem láti troða amfetamíni í óæðri endann á sér. Samfarir þar sem ekkert er dregið undan en ljótleikinn í aðalhlutverki. Þá er fiskvinnslufólkið ekki látið líta vel út eins ég upplifði það.“
Því næst tekur Ásmundur upp hanskann fyrir konum sem hann segir lítillækkaðar í þættinum.
Er ekki komin tími til að landbyggðarrasisma menningarvitanna og Ríkisútvarpsins linni. Baráttumálum Ríkisútvarpsins og samstarfsaðilum þess má koma á framfæri á annan hátt en gera lítið úr fólki sem vinnur mikilvæg gjaldeyrisskapand störf á landsbyggðinni og í sjávarplássum allt í kringum landið.“
Gunnar Smári Egilsson, einn stofnanda Sósíalistaflokks Íslands fagnar því að nú sé þjóðin búin að fá nýtt umræðuefni í stað Covid-19.
„Hvað sem segja má um Verbúðina þá hefur henni tekist að ná því besta út úr Facebook. Það er eins og þjóðin hafi beðið eftir að ræða eitthvað annað en cóvid, fólk er að brillera í greiningum á hverju smáatriði. Og því veigamikla, eins og sambýli fólks í þessu blessaða landi. Hvers vegna var þjóðinni ekki boðið upp á svona spegil miklu fyrr? Af öllu því efni sem búið er til sýningar, þá er það helst áramótaskaupið sem almenningur tekur sem að fjalli um sig. En viðbrögðin við skaupinu fjara út á einum, tveimur dögum (það er merki um sturlun að ræða skaupið eftir þrettándann). En Verbúðin verður næstu tvo mánuðina. Ef fram fer sem horfir munuð þið ná að endurskrifa Íslandssöguna og endurmeta alla þræði hennar á þeim tíma. Margar hendur vinna létt verk.“
Þá stingur Gunnar Smári upp á því að Rúv semji við Vesturport um gerð fleirri syrpa um Verðbúðina.
„Ég vona að RÚV sé núna að ganga frá pöntun á þremur nýjum syrpum af Verbúðinni. Það er löngu kominn tími á íslenskt Matador. Ef tíminn frá kvótakerfi að Hruni dugar ekki fyrir þrjár nýjar seríur má búa til forsöguna, kynna okkur fyrir foreldrum þessa fólks, öfum og ömmum; stríðsbraskinu, þorskastríðunum, flutningum fólks úr sveit í bæ og svo suður til Reykjavíkur, átökum milli kynja, kynslóða og stétta og frelsisbaráttu allskyns hópa. Það vantar söguna af því hvernig verkalýðshreyfingin var skipulega veikluð, hvernig bæjarútgerðirnar voru byggðar upp og rændar, hvernig ríkisvaldinu var beitt til að halda almenningi niðri.“
Að lokum lýsir Gunnar Smári áhyggjum sínum um þættina.
„En gallinn við svona þáttaraðir, sem hafa það að meginmarkmiði að sameina þjóðina við áhorf, er að þær verða að slípa burt bitran sannleikann. Þær geta sýnt almúgann í óvægnu ljósi en síður valdastéttina, pólitíkina, spillinguna og stærsta þjófnaðinn. Niðurstaðan verður því oftast sama gamla sagan en með eilítið öðru bíti. Nema þið standið ykkur þess betur hér á Facebook. Alla vega er ljóst að þjóðin getur ekki lifað heilbrigðu lífi innan lygasögu þeirra sem rændu þjóðina af völdum, eignum, auðlindum og fé. Íslandssagan sem við lifum innan, sem er bakgrunnur allrar umræðu og frétta, er lygi til að hylma yfir þjófnað.“
Verbúð er á dagskrá Rúv á sunnudagskvöldum klukkan 21:15.