Ásmundur Friðriksson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, í Suðurkjördæmi er afar vinsæll á meðal flokksmanna í héraði. Eins og sést á akstursreikningum hans þá er hann mikið á ferðinni og ræktar vel tengslin við kjósendur. En nú virðist kappinn vera orðinn þreyttur á allri keyrslunni því hann sækist eftir starfi sveitarstjóra í Rangárþingi ytra. Sérstakt baráttumál hans er að gera Hellu að mekka íslenska hestsins, eins og fram kemur í Mogganum.
Gárungarnir segja að Ásmundur sé orðinn þreyttur á allri keyrslunni og vilji komast í ró. En sveitarstjórastaðan er sýnd veiði en ekki gefin. Ásmundur mun þurfa að berjast af hörku til að ná starfinu. Ef illa fer getur hann einfaldlega haldið sig við þingmennskuna áfram með tilheyrandi og slítandi akstri um kjördæmið …