Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona Pírata, sver af sér aðkomu að dansleik sem lögreglan þurfti að stöðva í nótt þar sem fjöldi fólks er talið hafa brotið sóttvarnarlög og áfengislög.
Umræddur staður er Forsetinn á Laugavegi en lögreglan þurfti að stöðva samkvæmið. Nánar tiltekið hafði fólk keypt áfengi á Forsetanum en flutt með sér á dansæfingu í húsnæði hliðin á staðnum.
Áður hefur verið greint frá því að Ásta væri einn eigandi og stofnenda staðarins. Hún kom í fjölda fjölmiðla og kynnti staðinn undir þeim formerkjum. Á Facebook virðist hún sjá í hvað stefndi og skrifar:
„Af gefnu tilefni og án þess að vilja fara í einhverjar nánari útskýringar, þá er kannski gott að það komi fram að ég hef ekki komið nálægt rekstri Forsetans síðan í haust.“
Í samtali við Mannlíf leggur hún áherslu á að hún hafi ekkert komið nálægt rekstrinum en vildi ekki vísa blaðamanni á núverandi rekstraraðila. Hún hafnar því að hafa átt staðinn en í eldri viðtölum þegar staðurinn var kynntur til leiks kemur fram að hún hafi stofnað staðinn ásamt föður sínum. Hver sá sem á staðinn mun verða kærður fyrir brot á áfengislögum fyrir að selja áfengi út af staðnum yfir í salinn við hliðina á.