Ljósmyndir og lýsingar farþega af ástandinu um borð í Diamond Princess skemmtiferðaskipinu vekja athygli á samfélagsmiðlum. Í skipinu eru rúmlega 3.700 farþegar í einangrun vegna kórónuveirunnar sem kennd er við kínversku borgina Wuhan.
Farþegarnir þurfa að vera 14 daga í sóttkví í skemmtiferðaskipinu við strendur Japan eftir að 20 tilfelli af smiti greindust í skipinu.
Nokkrir farþegar Diamond Princess lýsa ástandinu í skipinu á samfélagsmiðlum.
Farþegar mega ekki yfirgefa herbergi sín í þessa 14 daga. Er fram kemur í frétt Business Insider eru herbergi skipsins afar ólík og misstór, sum eru með svölum og önnur ekki. Á allra ódýrustu herbergjunum eru ekki einu sinni gluggar.
Farþegum er færður matur upp á herbergi en máltíðirnar eru ekki alltaf sérlega lystilegar ef marka má færslur þeirra sem hafa birt myndir af matnum á samfélagsmiðlum.
Farþegar hafa þá sumir gagnrýnt það að fyrsta máltíð dagsins hefur borist mjög seint og vonlaust er að fá séróskir uppfylltar.
#day2 #coronavirus #outbreak #quarantine on #diamondprincess lunch for today. #fightcoronavirus pic.twitter.com/6rQrLXefm2
— Yardley Wong (@yardley_wong) February 6, 2020
Lítið upplýsingaflæði
Einn farþegi skipsins, Masako Ishida, lýsti ástandinu í samtali við The New York Times. Hún gagnrýndi upplýsingaflæðið en hún heyrði fyrst af einangruninni í fréttum en ekki frá starfsfólki skipsins.
Hjónin Alan og Weendy Steele höfðu sömu sögu að segja. Þau sögðu í samtali við The Washington Post að farþegar þyrftu að stóla á fjölmiðla hvað nýjar fréttir og upplýsingar varðar þar sem starfsfólk skipsins veita engar upplýsingar. „Það er komið fram við okkur eins og fanga og glæpamenn,“ sögðu þau. Spurð út í líðan sína sögðust þau vera að „klikkast“.
I’d like to share what it’s like on board the Diamond Princess cruise. Please use this page to exchange info. #DiamondPrincess #coronavirus pic.twitter.com/wRLdy63suj
— だぁ(On board the Diamond Princess / 乗船中) (@daxa_tw) February 5, 2020