Heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest þriðja COVID-19 smitið í Vestur-Ástralíu, stærsta fylki Ástralíu. Sú smitaða er kona á fertugsaldi sem hafði nýverið snúið til baka til Ástralíu eftir að hafa ferðast um Bretland og Ísland. RÚV greinir fyrst frá og vísar í ástralska miðilinn ABC. Konan hafði viðkomu í Dúbaí á leið sinni heim.
Líðan konunar er sögð ágæt en hún sætir nú heimaeinangrun.
Í frétt ABC segir að um leið og konan hafi fundið fyrir einkennum þá hafi hún lokað sig af. Þar segir einnig að nú sé unnið að því að rekja leið hennar. Í fréttinni er tekið fram að konan hafi byrjað að finna fyrir einkennum þegar hún var komin til Ástralíu.