Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi og friðarsinni, hefur átt erfitt uppdráttar í kosningabaráttunni. Sárafáir hafa lýst yfir stuðningi við hann og mælingar sína að hann er aðeins með fylgi sem telur rúmlega 1 prósent. Ástþóri barst stuðningur úr óvæntri átt í gær þegar Eiríkur Rögnvaldsson prófessor tók af skarið.
„Ég heyrði viðtal við Ástþór í Speglinum. Svei mér ef ég var ekki sammála honum í einu og öllu. Kannski er hans tími kominn,“ skrifar Eiríkur á Facebook. Margir skrifa athugasemdir undir yfirlýsinguna og sýnist sitt hverjum.
Jón Atli Játvarðarson á Reykhólum tekur undir með Eiríki.
„Ástþór hefur mikið til síns máls. Það gengur ekki að lauma þjóðinni inn í stríðsrekstur austur í Rússlandi. Það er algjörlega óafsakanlegt að Ísland brjóti stjórnarskrána með þessum óbeinu árásum á Rússa,“ skrifar hann.
Útivistargarpurinn Þorvaldur V. Þórsson er á allt öðru máli og telur að Ástþór sé „ekki með öllum mjalla“.
Kristín Jónsdóttir, yfirlýstur stuðningsmaður Baldurs Þórhallssonar, tekur undir með Eiríki en með herkjum þó.
„Ég er enn að jafna mig á því hvað ég var sammála honum í kappræðum á dögunum. En reyndar bara í einu máli,“ skrifar hún í athugasemd.
Þess er skemmst að minnast að Egill Helgason opnaði sig um aðdáun á Ástþóri í þættinum Vikan með Gísla Marteini.