Óvissa um horfur blasir við hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu vegna útbreiðslu COVID-19. Ferðamálastofa boðar til fundar í dag vegna þessa þar sem væntanlegt hvatningarátak vegna ferðalaga innanlands verður kynnt.
Markmiðið með hvatningarátakinu er að vekja athygli á fjölbreyttri ferðaþjónustu um allt land og hvetja landsmenn til að ferðast innanlands í ár og kaupa þjónustu fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Meðal annars verður farið yfir hvernig ferðaþjónustan getur nýtt sér hvatningarátakið og auglýsingaefni sem útbúið verður í tengslum við það.
Fundurinn hefst klukkan 11:00 og verður honum streymt beint á Facebook-síðu Ferðamálastofu.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, er bjartsýnn og segir sumarið líta vel út. „Sumarið lítur bara ágætlega út, það verða án efa mun fleiri sem munu ferðast innanlands,“ sagði Páll í viðtali við Rás 1 og 2 í morgun. Hann segir gaman að sjá að Íslendingar eru strax farnir að njóta náttúru Íslands í auknum mæli.
Hann segir félagið nú vinna að því að setja saman ýmis tilboð og spennandi nýjungar sem kynntar verða í næstu viku.