Lögreglunni barst í gærkvöldi tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í Árbænum. Lögregla fór á vettvang og kannaði málið en stuttu síðar barst önnur tilkynning úr sama hverfi þar sem íbúi sagðist hafa séð til manns vera að reyna að brjótast inn í bifreiðar. Lögregla hafði upp á manninum sem var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Í hverfi 108 sinnti lögregla útkalli síðar um kvöldið vegna einstaklings sem sýndi af sér ógnandi hegðun. Þá sinnti lögregla reglubundnu umferðareftirliti. Einn ökumaður var sektaður fyrir að tala í síma undir stýri og annar stakk af eftir árekstur. Þá var karlmaður handtekinn grunaður um ölvunarakstur og tveir aðrir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.