Harald Schaller hefur búið á Íslandi í ellefu ár, stundaði háskólanám hér og lítur á sig sem Íslending þótt hann sé ekki innfæddur. Hann kom hingað upphaflega sem skiptinemi og líkaði svo vel að hann ákvað að koma aftur og setjast hér að. Hann lauk háskólanámi í iðnverkfræði í heimalandi sínu Þýskalandi en þegar hann hugðist nýta þá menntun á Íslandi kom babb í bátinn.
Verkfræðingafélag Íslands neitaði að staðfesta gráðu hans í iðnverkfræðinni og eftir að hafa reynt að hefja framhaldsnám í sinni grein við Háskóla Íslands söðlaði hann um og hóf að nema umhverfis- og auðlindafræði og síðar landafræði. Hann starfar í dag sem verkefnastjóri í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og unir glaður við sitt, en hann segir baráttuna við að fá menntun sína metna á Íslandi hafa tekið mikið á sig.
„Ég ætlaði upphaflega bara að vera hálft ár sem skiptinemi á Íslandi en mér líkaði svo vel hér að ég ákvað að framlengja dvölina og var hér í heilt ár,“ segir Harald spurður um ástæðu þess að hann settist að á Íslandi. „Svo fór ég aftur heim til Þýskalands og lauk háskólanáminu í iðnverkfræði þar. Eftir að náminu lauk áttaði ég mig á að mig langaði til að læra meira og kom aftur til Íslands til að hefja framhaldsnám í iðnverkfræði við Háskóla Íslands.“
Mátti kalla sig tæknifræðing
Sú áætlun fór þó ekki alveg eins og Harald hafði hugsað sér og lendingin varð sú að hann skipti um námsbraut og hóf nám í umhverfis- og auðlindafræðum. Hvernig stóð á því?
„Áður en ég gat hafið framhaldsnám í iðnverkfræði setti Háskóli Íslands það skilyrði að ég lyki tveimur kúrsum í stærðfræði, sem voru kenndir á íslensku. Þeir áttu líka í erfiðleikum með að finna leiðbeinanda fyrir mig og á endanum varð þetta bara of flókið svo ég skipti yfir í umhverfis- og auðlindafræðina sem síðar leiddi mig yfir í landafræðina.“
Í framhaldi af náminu starfaði Harald að rannsóknum sem tengdust ferðamennsku og landafræði fyrir HÍ. Hann segir hlæjandi að þetta hafi verið löng og flókin leið, þrettán ára háskólanám en hann lauk M.Sc-gráðu í landafræði vorið 2016 og fór síðan að velta fyrir sér möguleikum sínum á starfi við sitt hæfi. Hann hafði með fram náminu unnið við alls kyns störf tengd ferðamannaiðnaðinum, á hótelum, börum, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og sem leiðsögumaður en hann segist fljótt hafa áttað sig á því að til þess að geta unnið vinnu við sitt hæfi á Íslandi yrði hann að læra íslensku betur.
„Ég vildi ekki festast í ferðamannaiðnaðinum svo ég reyndi að fá gráðuna mína í iðnverkfræðinni staðfesta af íslenskum yfirvöldum svo ég mætti kalla mig iðnverkfræðing og gæti unnið sem slíkur hér á landi. Það var þá sem vandræðin byrjuðu.“
„Ég vildi ekki festast í ferðamannaiðnaðinum svo ég reyndi að fá gráðuna mína í iðnverkfræðinni staðfesta af íslenskum yfirvöldum svo ég mætti kalla mig iðnverkfræðing og gæti unnið sem slíkur hér á landi. Það var þá sem vandræðin byrjuðu. Það ferli tók eitt og hálft ár, þrátt fyrir að ég hefði staðfestingu á gráðunni frá háskólanum mínum í Þýskalandi. Umsóknin fór til ráðuneytisins sem síðan bað Verkfræðingafélag Íslands um álit. Þeir úrskurðuðu að ég mætti ekki kalla mig iðnverkfræðing en ég mætti segjast vera með BS-gráðu í tæknifræði. Það tók mig sem sagt átján mánuði af rökræðum við Verkfræðingafélagið að fá þessa niðurstöðu þrátt fyrir samninga á milli Evrópusambandsins og Íslands um að nám mitt í Þýskalandi jafngildi BS-gráðu í iðnverkfræði og einu ári af námi á masters-stigi í greininni að auki. Það voru mikil vonbrigði að fá það ekki viðurkennt hér og á endanum gafst ég bara upp á þessu ströggli og sætti mig við að ég gæti aldrei unnið sem iðnverkfræðingur á Íslandi.“
Forréttindi að vera frá Mið-Evrópu
Eftir þessa baráttu fór Harald að leita sér að starfi við eitthvað sem tengdist námi hans í umhverfis- og auðlindafræðinni og hann segir það hafa verið sitt lán að rekast á auglýsingu um starf sem landvörður í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Hann fékk starfið og vann sig síðan upp í það að verða verkefnastjóri í þjóðgarðinum þar sem hann vinnur í dag. Spurður hvort það sé ekki dálítið ótengt því sem hann menntaði sig til viðurkennir hann að það sé auðvitað ekki það sem hann hafi hugsað sér þegar hann hóf námið en hann hafi ákveðið að setja það ekki fyrir sig og telji sig í dag hafa dottið í lukkupottinn við það að fá þetta starf. Þetta ferli hafi sýnt honum fram á að það sem sagt er um að þegar einar dyr lokist opnist aðrar sé satt.
Aðspurður hvað valdi því að hann hafi ákveðið að gera Ísland að heimalandi sínu þrátt fyrir vonbrigðin sem úrskurður Verkfræðingafélagsins olli honum svarar Harald að það sé svo sem ekkert einfalt svar við þeirri spurningu.
„Þegar ég kom hingað fékk ég þá tilfinningu að hér gæti ég látið hvað sem væri gerast,“ segir hann. „Heima í Þýskalandi fannst mér stundum að alls konar reglugerðir og stíf lagskipting samfélagsins stæði manni fyrir þrifum. Hér eru allir möguleikar opnir og maður kemst ótrúlega fljótt inn í hugsunarháttinn „þetta reddast“. Og þótt það sé reyndar ekki góð stefna fyrir stjórnvöld til að stjórna landinu þá gefur hún einstaklingum ótrúlegt frelsi til að fara alls konar krókaleiðir í lífinu. Það hentar mér vel.“
Harald er 39 ára gamall og þótt hann sé samkynhneigður tilheyrir hann samt menginu „hvítur miðaldra karlmaður“ sem hann viðurkennir fúslega að gefi honum forskot fram yfir ýmsa aðra útlendinga sem vilja lifa og starfa á Íslandi. Það sé líka ákveðin virðing borin fyrir fólki frá Mið-Evrópu og hann hafi því ekki upplifað fordóma fyrir útlendingum á eigin skinni.
„Ég geri mér grein fyrir því að þótt ég tilheyri minnhlutahópi sem samkynhneigður karlmaður nýt ég samt forréttinda hér,“ segir hann. „Ég hef alveg orðið var við fordóma fyrir öðrum útlendingum og ég held að það þurfi virkilega að fara að taka á þeim málum. Það gengur ekki í nútímasamfélagi að fólk sé fordæmt út frá húðlit eða uppruna.“
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir