Móðir átta ára drengs sem reyndi að selja úr föður síns segist vera miður sín. Drengurinn, Casey notaði aðgang móður sinnar að smáforritinu Vinted til þess að auglýsa úrið til sölu. Úrið er að gerðinni Hugo Boss en Casey, sem hefur eðlilega enga þekkingu á úrum, sagði gerðina vera „NICE.“ Rukkaði hann hundrað bresk pund fyrir gripinn eða rúmar 17 þúsund íslenskar krónur. Gróðann ætlaði Casey að nota til þess að festa kaup á nýju reiðhjóli. Auglýsingin er titluð sem „Úrið hans pabba.“
Drengurinn kom upp um sig eitt kvöldið þegar hann bað móður sína að skoða ekki forritið. Henni brá heldur í brún þegar auglýsingin blasti við henni. „Við trúðum þessu ekki. Við hjónin notuðum forritið til þess að selja föt sem við vorum hætt að nota. Hann hefur líklega fengið hugmyndina þaðan“
Casey er mikill viðskiptamaður og minnist móðir hans þess þegar hann færði henni hring sem hann hefði búið til sjálfur. „Hann gaf mér hringinn vegna þess að hann elskar mig svo mikið. Síðar sagði hann að ég þyrfti að borga honum 20 pund ef ég vildi halda honum.“