Dýravinurinn Sif Ívarsdóttir, átta ára, tók nýlega ákvörðun upp á eigin spýtur að hætta að borða kjöt og aðrar dýraafurðir. Hún vill að allt fólk í heiminum geri slíkt hið sama og bað því forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, um hjálp.
Sif sendi forsetanum skilaboð í gegnum Facebook-síðu mömmu sinnar og óskaði eftir því að hann kæmi því til skila til fólks að nú þyrftu allir að hætta að borða kjöt. Skömmu síðar fékk Sif bréf með svari Guðna.
„Ég get ekki skipað öllu fólki í heiminum að hætta að borða dýr en við skulum vinna saman að því að hvetja alla til þess að sýna dýrum virðingu og hugsa eins vel um þau og hægt er,“ skrifaði forsetinn meðal annars í bréfið.
Sif var himinlifandi þegar svar Guðna barst að sögn móður Sifjar, Sigríðar Karlsdóttur. „Sif var svo ánægð. Við kíktum í póstkassann á hverjum degi því við vissum að það væri bréf á leiðinni. Þegar það kom þá las hún það nokkrum sinnum. Hún var pínu leið að forsetinn gat ekki skipað öllu fólki að hætta að fara illa með dýr en hún var svo ánægð að forsetinn skyldi vera þeirra skoðunar að það ætti að bera virðingu fyrir dýrunum. Hann er náttúrulega algjör demantur, þessi forseti okkar.“
Vill fólkið í fangelsi
Sigríður segir Sif hafa viljað senda forsetanum skilaboð á Facebook eftir að hafa séð myndband þar sem fólk sást fara illa með dýr. „Þá bað hún mig um senda forsetanum póst í hvelli og svo ætlaði hún að mæta þessu fólki og setja það allt í fangelsi. Við þurftum dálítinn tíma til að jafna okkur og spurningarnar sem fylgdu í kjölfarið voru ansi margar,“ segir Sigríður.
Sigríður segir dóttur sína vera afar mikinn dýravin. „Hún fær þetta örugglega mest frá pabba sínum. Hann er svakalegur dýravinur. Við horfum mikið á dýramyndbönd þar sem dýr kæta okkur og gleðja. Og við höfum alltaf sagt henni að koma vel fram við dýr. Hún er með svo gott hjartalag að þetta liggur bara beint við.“
Bréf Guðna til Sifjar má sjá hér fyrir neðan.