Babi Christina Engelhardt kveðst hafa átt í löngu ástarsambandi við leikstjórann Woody Allen. Sambandið hófts þegar hún var 16 ára.
Kona að nafni Babi Christina Engelhardt hefur nú stigið fram og greint frá því að hún og Woody Allen áttu í ástarsambandi í um átta ára skeið. Sambandið hófst árið 1976, þegar hún var 16 ára og Allen 41 árs.
The Hollywood Reporter birti í gær ítarlegt viðtal við Babi. Þar kemur fram að ástarsamband þeirra Babi og Allen hafi hafist í október árið 1976 eftir að þau kynntust á veitingastað í New York. Á þessum tíma starfaði Babi sem fyrirsæta.
Babi kveðst hafa haft frumkvæði að samtalinu þegar hún skrifaði símanúmer sitt á servéttu og afhenti Allen. Eftir það hittust þau reglulega á heimili hans í New York og stunduðu kynlíf. Í viðtalinu segir Babi að hún hafi einnig komið með vinkonur sínar heim til Allen og að þau hafi stundað hópkynlíf.
Hún tekur fram að hún sé ekki að stíga fram og greina frá ástarsambandi sínu við Allen til að koma óorði á leikstjórann. „Ég er að tala um ástarsögu mína. Þetta mótaði mig. Ég sé ekki eftir neinu“.
Þess má geta að Woody Allen var í opinberu sambandi með leikkonunni Miu Farrow frá árinu 1980 til ársins 1992, þegar upp komst að Allen og ættleidd dóttir Farrow, Soon-Yi Previn, áttu í ástarsambandi.