Bæjarins beztu hafa farið hamförum í verðhækkunum hjá sér því á tæpum sjö mánuðum hefur pylsan hækkað um 17 prósent hjá fyrirtækinu.
Verðhækkun upp á 6,4 prósent átti sér stað hjá þeim í lok nóvember 2020. Eftir þá hækkun kostaði pylsan 500 krónur en í dag eftir enn aðra hækkunina kostar hún 550 krónur, það er 10 prósent hækkun til viðbótar á mjög skömmum tíma. Samtals hefur því pylsa hjá Bæjarins beztu hækkað um 17 prósent á tæpum sjö mánuðum sem verður að teljast mjög mikil hækkun.
Samkvæmt grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 9. febrúar 1995 má sjá að pylsan hjá Bæjarins beztu kostaði þá 140 krónur. Sé þeirri upphæð skellt inn í verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands má sjá að verðið í dag ætti að vera 408 krónur. Verðið í dag er 35 prósent hærra en það sem reiknirinn gefur upp og mætti spyrja sig þeirrar spurningar hverju það sætir.
Til gamans má geta þess að pylsa kostaði hjá Bæjarins beztu 380 krónur síðari hluta árs 2014. Sé því verði slegið inn í verðlagsreikninn ætti pylsan að kosta 459 krónur. Verðið í dag er 20 prósent hærra og því verður það að teljast ljóst að þessar hækkanir eru alls ekki í takt við nokkuð annað en að fyrirtækið vill meiri gróða á kostnað neytenda.