Í kvöld klukkan 20.30 fer fram bænastund í Grindavíkurkirkju fyrir Sólrúnu Öldu Waldorff, 22 ára, sem er alvarlega slösuð eftir bruna í Mávahlíð aðfararnótt miðvikudags.
Það eru vinkonur Sólrúnar Öldu sem standa að bænastundinni.
„Elsku vinkona okkar hún Sólrún Alda er að berjast fyrir lífi sínu og langar okkur vinkonunum að halda bænastund í Grindavíkurkirkju á morgun föstudaginn 25.okt kl 20:30,“ segja vinkonur Sólrúnar í skilaboðum sem þær hafa látið ganga á Facebook og hvetja þær til þess að fólk sameinist í kirkjunni og sendi Sólrúnu Öldu og fjölskyldu hennar styrk á þessum erfiða tíma.
Sjá einnig: Þrjú slösuð eftir bruna
Berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi erlendis
Mannlíf greindi frá því fyrr í dag að tveir einstaklingar væru mjög alvarlega slasaðir eftir brunann sem átti sér stað í íbúð í Mávahlíð aðfaranótt miðvikudags. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að þrír aðilar á þrítugsaldri, ein kona og tveir karlar, hafi verið fluttir á slysadeild. Málið er í rannsókn að sögn lögreglu, en talið er að eldurinn hafi kviknað í potti á eldavélarhellu.
Sólrún Alda var flutt á sjúkrahús erlendis til frekari aðhlynningar, þar sem hún berst fyrir lífi sínu. Á heimasíðu Grindavíkurbæjar kemur fram að Þórunn Alda Gylfadóttir móðir Sólrúnar Öldu segir ástandið mjög alvarlegt. Sólrún Alda væri í lífshættu og tekin væri ein klukkustund í einu. Allar bænir myndu hjálpa.