Bænastund var haldin í Vídalínskirkju í Garðabæ vegma fráfalls litla drengsins sem lést af slysförum á þriðjudag. Mikil sorg er í bænum vegna fráfallsins og fólk er slegið. Drengurinn var á 12 ári þegar hann lést.
Prestarnir Jóna Hrönn Bolladóttir og Henning Emil Magnússon hittu nemendur skólans til að segja þeim frá andlátinu og veita huggun. Skólastjórnendur Sjálandsskóla sendu foreldrum tilkynningu vegna atburðarins:
„Við biðjum ykkur að umvefja börnin ykkar hlýju og eiga eins yfirvegaða umræðu og kostur er. Við leggjum áherslu á að skólastarfið haldi sínum daglega takti og að skólasamfélagið okkar standi saman á tímum sem þessum. Hugur okkar er hjá fjölskyldunni sem á nú um sárt að binda,“ skrifuðu Sesselja Þóra Gunnarsdóttir skólastjóri og Ósk Auðunsdóttir aðstoðarskólastjóri undir póstinn.
Í niðurlagi tölvupóstsins er lögð áhersla á kærleikann og samheldnina. „Við sjáum það á þessum erfiðu tímum að kærleikurinn í okkar samfélagi er mikill og við stöndum saman, öll sem eitt. Unnið er eftir áfallaáætlun skólans og erum við á fyrsta stigi hennar. Við munum halda ykkur upplýstum eins og við á.“
Lögreglan rannsakar slysið eins og ævinlega þegar dauðsfall verður af slysförum. Ekkert hefur verið gefið upp um málið annað en að ekki sé grunur uppi um neitt saknæmt.