Mánudagur 25. nóvember, 2024
-7.2 C
Reykjavik

Bakarinn sem fékk ofnæmi fyrir hveiti: Stefán berst með hundinum sínum við mannýgar rottur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stefán Gaukur Rafnsson starfar sem meindýraeyðir ásamt hundinum sínum, Freyju. Þá kennir hann einnig skotfimi en í ár hlotnaðist hann sá heiður að verða Íslandsmeistari í skotfimi. Hann segir Mannlífi frá starfinu sem er ekki fyrir alla og veiðidellunni.

Stefán Gaukur, sem er 32 ára, er fæddur og uppalinn Reykvíkingur, bjó mest af í Grafarvoginum. Á hann að eigin sögn yndislega konu og tvö börn. Hann er í grunninn með menntun sem bakari þó hann hafi alltaf stefnt á að verða kokkur.

„Svo fór maður að spyrja sig þessarar klassísku spurningar, hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór?“

Stefán byrjaði í kokkinum en fór svo yfir í bakarann en varð að hætta af pínlegri ástæðu. Hann reyndist með ofnæmi fyrir hveiti. Fyrst um sinn fór hann að vinna við að selja hveiti. „Þetta var yndislegur tími en ég er samt og hef alltaf verið innst inni algjör drullumallari, vil helst vera í skítugum fötum.“

Hann hafði átt erfitt með að finna tíma til að vera úti í náttúrunni eins og hann elskaði en fór þá að hugsa með sér, „hvað er fullkomin vinna? Það er að sjálfsögðu að veiða, drepa og bjarga fólki. Þá datt mér í hug meindýraeyðirinn.“ Segist Stefán ekki sjá eftir einni mínútu frá því að hann byrjaði í þeim bransa.

- Auglýsing -

„Þá kemur aukapungur í mann“ 

Fyrsta verkefnið sem Stefán fékk sem meindýraeyðir var ekki af léttara taginu. „Fyrsta verkefnið var risastórt geitungabú og ég hafði ekki hlotið neina þjálfun í því. Þannig að það var bara að gera eitthvað. En svo kemur þetta bara með reynslunni. En þetta er ekki starf fyrir hvern sem er.“

Aðspurður hvort hann sé ekkert smeykur við geitunga segist Stefán ekkert vera vel  við þá en „þegar þú ert kominn í gallann og ert að fara að bjarga fólki, þá kemur bara aukapungur í mann.“

- Auglýsing -

Stefán Gaukur rekur meindýraeyðisþjónustuna Ókindina sem hann stofnaði fyrir tveimur árum. Stefán hefur þó verið viðriðinn slíka þjónustu í gegnum tíðina. Hann er ekki eini starfsmaður fyrirtækisins því hundurinn Freyja hjálpar honum endrum og eins.

„Hún er fínn félagsskapur en svo nota ég hana líka þegar ég er lítill í mér og sendi hana á rotturnar.“

Hundurinn Freyja á skilið hærri laun

Aðspurður segir Stefán alveg hafa lent á auðveldum rottum í fagi sínu en svo hefur hann lent í þeim erfiðari. „Maður hefur alveg lent í rottum sem eru mannýgar. Þá gengur maður bara frá því og fær svo gæsahúð á eftir,“ segir Stefán en bætir við að þetta sé svo sem bara vinna eins og hvað annað.

Hann segir ennfremur að stundum þurfi meindýraeyðirinn að sinna hálfgerðri áfallahjálp og nefnir dæmi.

„Eitt skipti fékk ég símtal frá manni sem bjó í kjallaraíbúð niðri í bæ en hann var í miklu uppnámi. Hann hafði verið sofandi en vaknað við það að verið var að klóra honum á bakinu. Reyndist það vera rotta.“

Rotturnar segir Stefán, eru einstaklega útsjónasamar skepnur og erfitt sé að veiða þær í gildrur. „Þú þarft eiginlega að hugsa eins og þær, þær fara ekkert í gildrurnar, þú þarft að veiða þær í gildrurnar.“ Freyja hjálpar honum þegar rotturnar eru erfiðar og þá gengur hún bara í verkið og rífur þær í tvennt.

„En aðallega fer Freyja með mér til að finna kvikindin, hún er mjög góð í því enda einn besti hundur sem Ísland hefur eignast. Freyja er þýskur pointer og einstaklega góður alhliða veiðihundur. Hún er bara fullkomið heimilisdýr, vinnufélagi og veiðifélagi.“

Freyja veiðir sem sagt með Stefáni og vinnur algjörlega fyrir kaupinu sínu. „Hún hefur synt eftir seli, hún nær í gæsir og endur og finnur rjúpur fyrir mig. Það er eiginlega synd að ég skuli ekki borga henni betri laun en bara hundafóður,“ segir Stefán og hlær.

Freyja
Mynd: ókindin.is

Lífseig kvikindi

Nú hafa kakkalakkarnir bæst í skordýraflóru landsins þó þeir séu nú ekki búnir að dreifa sér um allt land. Stefán segir þá þróun nokkuð eðlilega í ljósi fjölgun ferðamanna til landins. „Fyrir 10 árum síðan voru sárafáir ferðamenn að koma til landsins en nú hafa verið að koma 3 milljónir og ekkert skrítið að þeir beri með sér allskonar kvikindi.“

Kakkalakkarnir eru ekki einu óværurnar sem hingað hafa sest að að undanförnu. „Bed bugs eða veggjalýs er annað dæmi, það er komið helvítið mikið af þeim, því miður.“ Stefán virðist mikið í mun að fá blaðamann Mannlífs til að fá gæsahúð og nefnir dæmi um kakkalakkaútkall sem hann fór eitt sinn í. „Þá var ég kallaður út vegna eins kakkalakka í skúffu en þegar ég opnaði skúffuna stukku á mig tugir kvikinda.“ Það hafa aðallega verið tvær tegundir kakkalakka sem Stefán hefur þurft að glíma við, sá þýski og sá spænski en sá síðarnefndi hefur oftar komið upp. „Þetta eru lífseig kvikindi.“

Þegar Stefán er spurður út í eftirminnilegasta meindýrið sem hann hefur glímt við verður hann hugsi. „Ég lenti einu sinni á rottu sem var einstaklega gáfuð, hún gekk framhjá öllum gildrum og það tók mig langan tíma að ná henni. Ég setti upp myndavél og sá að hún æddi framhjá öllum gildrunum eins og hún væri háskólagengin.“ Að lokum varð hann að nota haglabyssuna á hana.

Veiðieðlið kviknaði snemma

En Stefán er ekki aðeins flinkur meindýraeyðir, hann er einnig stoltur Íslandsmeistari í skotfimi en hann byrjaði í skotfimi aðeins tvítugur að aldri. „Það er svo geggjað að geta kallað sig Íslandsmeistara,“ sagði Stefán sposkur. Aðspurður sagði Stefán að veiðimennskan hafi komið á undan sportinu, „veiðimennskan kom bara þegar ég var fjögurra ára að murrka lífið úr murtum við Þingvallavatn.“ Fór hann oft að veiða með pabba sínum sem barn. „Pabbi er algjör veiðigedda og tók okkur öll börnin að veiða þegar við vorum yngri, til þess að fá að fara að veiða því mamma leyfði honum aldrei að veiða einn. Ég er að finna fyrir því í dag hvernig honum leið karlgreyinu.“ Svona dvöldu börnin með pabba sínum í æsku og þannig fékk Stefán veiðidelluna.

Á góðri stundu
Mynd: Aðsend

Grátleg framkoma við íþróttafólk

Stefán hefur einnig verið að kenna skotfimi en nýlega var skotsvæðinu lokað.

„Svæðinu var lokað vegna einhverrar kergju. Þetta er bara þannig með suma hópa, þeir eru á móti öðrum hópum og þarna erum við að eiga við bæði ríkið og einn einstakling í Kollafirðinum. Og þannig er búið að leggja niður eitt íþróttastarf á Íslandi, mér finnst þetta alveg klikkað. Það hafa ákveðnir aðilar viljað loka svæðinu og að lokum fundu þeir eina gilda ástæðu. Svæðið er sem sagt ekki á deiluskipulagi borgarinnar. Það eru mörg hús og mörg fyrirtæki, sum þeirra í eigu ríkisins sem ekki passa við deiluskipulagið á ýmsum svæðum. Þetta er mjög skrítið mál.“ Málið skiptir Stefán miklu máli en hann bætir því við að Skotfélag Reykjavíkur sé eitt elsta íþróttafélag á landinu og þarna sé fólk sem meðal annars keppir fyrir Íslands hönd erlendis. Þetta er grátleg framkoma við íþróttafólk,“ segir Stefán Gaukur, Íslandsmeistari í skotfimi og meindýraeyðir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -