Baldur Freyr Einarsson, framkvæmdastjóri Lausnarinnar, fjölskyldu- og áfallamiðstöðvar, segir í hlaðvarpinu Mannlífinu með Reyni Traustasyni frá erfiðri æsku sinni, sjálfsmorðstilraunum, neyslunni, líkamsárásinni árið 2002 sem leiddi 22 ára gamlan mann, Magnús Frey Sveinbjörnsson til dauða, trúarlegu upplifuninni og beinu brautinni sem hann fann.
„Ég missti litlu systur mína þegar ég var búinn að vera edrú í þrjú ár. Hún var í partíi uppi í Árbæ og var gefin einhver pilla sem var eitruð og dó í partíinu. Strákurinn sem gaf henni pilluna fékk síðar dóm,“ segir Baldur Freyr um þann harm sem hann glímdi við þegar systir hans lést vofveiflega. Maðurinn var dæmdur fyrir að koma deyjandi stúlkunni ekki til hjálpar og taka af henni myndband, nakinni og deyjandi.
Hann segir að gömlu vinir sínir hafi spurt sig hvort þeir ættu ekki að sjá um þennan gaur fyrir hann sem og að þeir hafi sagt að enginn hafi átt að koma svona fram við systur hans. „Ég var alveg mölbrotinn yfir að hún skyldi hafa dáið. Hún var í landsliðinu í fótbolta og var hetjan eða vonin í fjölskyldunni okkar. Ég breytti vændishúsinu sem ég var með í áfangaheimili og fór að taka menn inn af götunni og var búinn að berjast við þetta myrkur í allan þennan tíma og svo liggur litla systir mín í valnum. Ég sat þarna og var svo ringlaður og ég vissi ekki hvað sneri upp eða niður. Vinur minn sagði mér að kinka kolli,“ segir Baldur og þannig átti hann að samþykkja að hann vildi að ráðist yrði á þann sem lét systur hans hafa lyfið. Og hann kinkaði kolli.
„Morguninn eftir var ég úti að hlaupa og þá leið mér eins og litla systir mín væri að hlaupa með mér. Ég sá hana ekkert; bara tilfinning sem ég fékk. Ég fann að tárin byrjuðu að myndast í augunum á mér og svo heyrði ég rödd hennar í huga mér segja: Hvernig viltu muna eftir mér? Þá brotnaði ég niður og hringdi strax í þennan vin minn og sagði „ekki gera neitt“.“
Baldur segir að ef ráðist hefði verið á manninn þá myndi hann alltaf tengja það við systur sína. „Ég veit ekki hvort ég sæti hérna í dag ef ég hefði sagt já við þessu af því að eitt leiðir af öðru.“
Baldur heimsótti síðan umræddan mann, sem lét systur hans hafa lyfið, í fangelsi og fyrirgaf honum. „Ég tók utan um hann og sagði að hann væri alltaf velkominn til okkar og að faðmur okkar væri útréttur fyrir hann. Og ég meinti það,“ segir Baldur og á þarna við Lausnina, fjölskyldu- og áfallamiðstöð, þar sem hann er framkvæmdastjóri.
Hún var í landsliðinu í fótbolta og var hetjan eða vonin í fjölskyldunni okkar.
Syntu, hundurinn þinn
Baldur Freyr Einarsson ólst upp í Keflavík og var óregla á heimilinu sem og ofbeldi sem tengist sambýlismanni móður hans um tíma. Baldur segir að þau hafi flutt um 13 sinnum á meðan á um fimm ára sambandi móður hans og mannsins stóð.
„Það var ofboðslega erfitt að búa við þetta af því að maður vissi aldrei raunverulega hverju maður átti von á. Það sem kannski fór með mann í þessu uppeldi var að þegar hann var þarna þá var maður alltaf einhvern veginn „hvað gerist næst?“. Einn daginn henti maðurinn Baldri út í sundlaug og sagði „syntu, hundurinn þinn“. „Maður barðist fyrir lífi sínu að komast í land. Mér leið eins og ég væri í óratíma í loftinu en svo einhvern veginn varð hann svo stoltur af mér þegar ég kom í land.“
Maður barðist fyrir lífi sínu að komast í land.
Baldur var sex ára þegar hann kynntist blóðföður sínum og segir að samband þeirra hafi ekki verið mikið eftir það. „Ég hitti hann á sumrin og fékk jólagjafir og páskaegg. Svo bjó ég hjá þeim í nokkra mánuði þegar vandræðin voru ekki lengur út af því að við vorum að flytja heldur meira af því að maður var kominn með hegðunarvanda.“
Hann talar um mikið óöryggi á þessum árum og að sér hafi alltaf liðið eins og hann væri ekki nógu góður. Honum fannst eins og hann væri svarti sauðurinn og honum leið eins og hann passaði ekki inn. Var lagður í einelti. Hann fór sjálfur að beita ofbeldi í skólanum til þess að sporna gegn því þegar hann var um 12 ára.
Það var mikil reiði í honum. Rosalega mikil reiði. Hann segir að það hafi fyrst og fremst verið vegna ofbeldisins sem hann var beittur, bæði af hálfu sambýlismanns móður hans sem og misnotkun af hálfu annars manns, en hann þorði ekki að segja frá því fyrr en mörgum árum seinna sem og eineltinu í skólanum.
Systkini hans voru tekin af heimilinu vegna neyslu þar þegar hann var átta eða níu ára en hann bjó þar áfram af því að hann vildi vera hjá móður sinni. „Maður áttaði sig ekki alveg á því að það hafi ekki verið gripið inn í af því að auðvitað var mamma fórnarlamb inni í þessum aðstæðum. Svo er það þessi blessaða meðvirkni hjá öllum. Það var verið að taka mig og passa mig og svo var mér aftur skilað til mömmu þegar hún fannst og kom aftur. Fólk heldur oft að það sé að hjálpa en í rauninni er það að viðhalda vandanum.“
Byrjaði ungur í neyslu
Baldur byrjaði ungur í neyslu og þá bjó hann í Reykjavík. „Ég byrjaði að drekka 11 eða 12 ára. Ég byrjaði að sniffa og ég var með rosalega mikla sjálfsskaðahegðun. Ég var að brenna mig og skera mig; brenna mig með sígarettum og skera mig og laug að öllum að ég væri tilfinningalaus í hendinni. Það var eins og maður kæmist út úr einhverjum sársauka með því að gera það. Þegar ég notaði hugbreytandi efni og var að sniffa gas eða tippex þá var ég ekki beint háður vímunni heldur var ég háður því að losna við þennan króníska magaverk sem ég var búinn að vera með síðan ég var barn.“ Hann segir að auðvitað hafi þetta verið vegna kvíða. „Og þegar ég notaði þá hvarf þessi kvíðahnútur. Ég varð miklu meira háður því heldur en nokkurn tímann efnunum eða hvaða efni það var af því að það raunverulega skipti engu máli. Þá byrjaði ég að gera þetta eins oft og ég gat. Svo leiddi eitt af öðru. Ég hef alltaf verið sniðugur að redda mér og það hefur kannski bjargað mér í gegnum tíðina.“
Ég byrjaði að sniffa og ég var með rosalega mikla sjálfsskaðahegðun.
Hann segist hafa verið duglegur að stela og falsa ávísanir. „Þegar ég var 10-11 ára þá var ég kominn í það að vera að stela úr vösum á æfingum og stela söfnunuarbaukum til þess að geta keypt mér nammi.“
Tveir 14 ára strákar hurfu sporlaust í janúar árið 1994 og hefur ekkert spurst til þeirra síðan en síðast sást til þeirra í verslun í Keflavík. Annar þeirra var frændi og vinur Baldurs. Hann segir hann hafa verið uppeldisbróður sinn. „Maður horfði upp til pabba hans og fannst hann vera svo góður og hann var til staðar fyrir hann. Kannski langaði mann innst inni að vera partur af þeirri fjölskyldu. Við vorum mikið saman og ég húkkaði mér mikið far þegar ég var 13-14 ára; þá vorum við flutt í bæinn og ég var mikið að húkka mér far til að hitta þá. Svo man ég þegar ég var vakinn um miðja nótt af tveimur lögreglumönnum sem sögðu „hvar eru strákarnir?“. Ég var nývaknaður og skildi ekkert hvað var að gerast. Þá héldu þeir að ég vissi hvar þeir væru og væru einhvers staðar að fela sig hjá einhverjum sem ég þekkti af því að við vorum mikið saman. Lögreglan fór svo af því að ég vissi ekki neitt. Svo hófst þessi leit sem var ofboðslega erfið.“ Hann segir að mamma sín hafi tekið þátt í leitinni en að hann hafi þurft að vera heima. „Ég var sár yfir því að fá ekki að taka þátt í þessu. Það var alltaf verið að minna mig á að ég sé einskis virði.“
Baldur er spurður hvað hann haldi að hafi gerst. „Við vorum alltaf að leika okkur niðri við klettana, sérstaklega í vondu veðri. Það fólst í því mikil spenna að láta öldurnar berjast á klettunum við hliðina á okkur. Ég hef alltaf haldið að annar hafi dottið og hinn hafi reynt að bjarga honum og báðir farið út í. Það er skrýtið að ekkert hafi fundist í sjónum. Þetta var hrikalegur harmleikur og það sem er svo erfitt við þetta er að geta ekki hvatt. Venjulega er kistulagning og jarðarför en þarna var einhverjum kippt út úr lífinu og það eru engin svör.“
Baldur segist hafa orðið mjög þunglyndur eftir hvarf strákanna. „Mér leið illa fyrir en eftir þetta fór ég að fantasera um dauðann. Mig langaði til að deyja. Ég reyndi alls konar aðferðir til að sofna og minn mesti draumur var að geta sofnað og vakna ekki aftur.“
Baldur segir hvarf strákanna hafa verið mikið áfall og að þetta sé „rosalega blörrað tímabil“. „Í hvert skipti sem ég sá einhvern ljóshærðan og síðhærðan þá varð ég alltaf að hlaupa og kíkja framan í viðkomandi.“
Mér leið illa fyrir en eftir þetta fór ég að fantasera um dauðann. Mig langaði til að deyja.
Hrotti
Baldur dróst sífellt meira inn í óreglu.
„Ég var að finna nýjar leiðir til þess að vera undir áhrifum. Ég fór að brjótast inn til að fjármagna og spennufíknin var líka svo mikil. Ég þurfti alltaf einhvern veginn að lifa á jaðrinum. Ég fann síðan að efnin hjálpuðu mér. Ég var stöðugt að hugsa um að svipta mig lífi og vilja deyja en var alltaf með þessa grímu á lofti þegar ég hitti fólk.“ Hann segir að neyslan hafi verið mikil lausn af því að efnin slökktu á sársaukanum innra með honum.
Hann flutti til Danmerkur þegar hann var 17 ára og bjó þar um tíma; það var ákveðið að hann færi þangað til að reyna að laga ástandið. Hann segir að félagsskapurinn hafi ekki verið vandinn heldur hann sjálfur. „Ég var fljótur að koma mér í sams konar félagsskap þar en var þó að vinna. Það var allavega gott. Við vorum að smíða líkkistur og eftir vinnu keyrði ég kisturnar oft út með eigandanum.“ Hann langaði til að deyja á þessu tímabili og sá sig fyrir sér í kistunum sem hann var að smíða. „Þegar ég ákvað að hengja mig þarna þá var ég búinn að velja mér kistu. Ég fann að það var kominn tími til þess að ég myndi fara. Mér fannst ég vera byrði á öllum og það væri best fyrir alla að ég færi. Það var hugsunin. Ég skrifaði bréf og svo hengdi ég mig í beltinu mínu í bita og svo fann ég hvernig ég var að fjara út. Ég vaknaði svo á gólfinu og það var eins og ég hafi verið skorinn niður en samt var enginn inni í herberginu. Ég fór fram en það var enginn heima en ég hélt að einhver hefði skorið mig niður og farið fram af því að beltið var skorið. Ég sat á gólfinu og það eina sem komst að var að ég gæti ekki einu sinni drepið mig.“ Hann hugsaði með sér hvílíkur aumingi hann væri.
Þegar ég ákvað að hengja mig þarna þá var ég búinn að velja mér kistu.
Baldur fór til Íslands í sumarfrí. Einn daginn tók hann fullt af pillum og drakk hálfan lítra af landa og sofnaði á gólfinu. Ein frænka hans hringdi í aðra um miðja nótt með slæma tilfinningu að hans sögn og bað hana um að kíkja á hann og þá fann hún hann froðufellandi á gólfinu og kom honum á sjúkrahús þar sem var dælt upp úr honum. „Í framhaldinu sagði geðlæknir að ég yrði annaðhvort að fara inn á geðdeild eða í meðferð.“ Hann valdi að fara í meðferð. Ekki til að hætta í neyslu heldur til að friða fólk. Hann var þá 17 eða 18 ára. „Ég var búinn að gera margar sjálfsvígstilraunir en þær sem ég hafði gert þegar ég var yngri, svona 13-15 ára, voru ekki svona alvarlegar.
Hann var haldinn dauðahugsunum.
„Algerlega. Rómantíkin er öll í dauðanum.“
Hann leiddist út í enn harðari glæpi. Hann kynntist nýju fólki og eitt leiddi af öðru. „Áður en ég vissi af var ég orðinn harðsvíraður glæpamaður. Ofbeldismaður. Hrotti.“
Hann segist samt alltaf hafa verið með einhverja réttlætiskennd en að sér hafi fundist allt vera leyfilegt ef honum fannst einhver brjóta á sér. „Ég sá mig kannski ekkert sem þann mann af því að maður þurfti aldrei að taka ábyrgð á ofbeldinu. Þetta var nánast eins og einhver tölvuleikur. Maður fékk ekki tenginguna við þetta fyrr en þessi harmleikur átti sér stað.“
Áður en ég vissi af var ég orðinn harðsvíraður glæðamaður. Ofbeldismaður. Hrotti.
Mannsbani
Í frétt í Morgunblaðinu 31. maí 2003 segir:
„Tveir karlmenn á þrítugsaldri, Baldur Freyr Einarsson og Gunnar Friðrik Friðriksson, voru dæmdir í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur til fangelsisvistar fyrir stórfellda líkamsárás í Hafnarstræti 25. maí 2002, en hún leiddi rúmlega tvítugan mann, Magnús Frey Sveinbjörnsson, til dauða.
Baldur Freyr er dæmdur í þriggja ára fangelsi og að auki fyrir tvær aðrar líkamsárásir umrætt kvöld. Er hann dæmdur til að greiða þeim sem fyrir árásunum urðu skaðabætur. Gunnar Friðrik er dæmdur í tveggja ára fangelsi. Mennirnir eru báðir dæmdir til að greiða foreldrum hins látna um 2,4 milljónir í bætur. Ekki kom til álita að skilorðsbinda refsivist mannanna en frá refsivist þeirra dregst óslitið gæsluvarðhald hvors um sig frá 26. maí 2002.
Mennirnir neita báðir sök á dauða Magnúsar Freys en játa að hafa veist að honum umrætt kvöld.
Niðurstaða dómsins er m.a. studd lýsingu fjölmargra vitna af árásinni sem átti sér stað fyrir framan skemmtistaðinn Spotlight undir morgun laugardagsins 25. maí 2002. Þá var einnig stuðst við myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél.
Baldur Freyr er dæmdur fyrir að hafa slegið Magnús Frey mörg hnefahögg í höfuðið, veitt honum högg með höfðinu og sparkað í höfuð hans með hné og margsinnis sparkað af afli í höfuð mannsins með hné og fæti eftir að hann féll í götuna.
Gunnar Friðrik er dæmdur fyrir að hafa sparkað í efri hluta líkama Magnúsar Freys þegar hann reis upp eftir atlögu Baldurs Freys, svo að hann féll í götuna á ný, allt með þeim afleiðingum að Magnús Freyr hlaut höfuðkúpubrot og blæðingu inn á heila og lést hinn 2. júní sl. af völdum heilablæðingar og heilabjúgs.
Vitni greinir á um hver aðdragandi slagsmálanna var en það er mat dómsins að atlaga Baldurs Freys hafi nánast verið tilefnislaus og ekkert réttlæti jafn hrottalega árás. Magnús Freyr hafi lengstum enga vörn sér veitt og styður vitnisburður þetta álit dómsins svo og myndbandsupptakan.“
Árið er aftur 2021. September 2021. Viðtalið við Reyni Traustason.
„Þetta voru slagsmál niðri í bæ sem enduðu svona hrikalega,“ segir Baldur. „Við þekktumst eitthvað en ég mundi samt ekkert eftir honum. Hann var frá Keflavík en ég mundi ekkert eftir honum þarna, kannaðist ekki einu sinni við hann. Það var rosalegur harmleikur. Maður sat í fangaklefanum í mörg ár.“
Þetta voru slagsmál niðri í bæ sem enduðu svona hrikalega.
Baldur heyrði morguninn eftir slagsmálin að ástand Magnúsar væri tvísýnt. „Það var rosalegt. Ég fór strax úr partíinu sem ég var í og fór að hitta vini mína sem ég hafði verið mikið með og sagði þeim frá þessu. Þeir reyndu að stappa stálinu í mig. Á endanum bað ég tvo vini mína um að skutla mér til Keflavíkur heim til pabba stráksins sem týndist og ég man að ég grét alla leiðina til Keflavíkur. Ég þessi harði gaur, handrukkari, var bara þarna grátandi yfir þessu af því að hafa verið að slást við einhvern niðri í bæ og hlutirnir enduðu svona. Þetta er hræðilegt. Ég man að þegar ég labbaði til pabba pabba hans,“ segir Baldur og á við pabba frænda síns sem hvarf, „þá brotnaði ég algerlega niður. Ég sat svo í stofunni og grét. Ég var kominn með textavarpið á og horfði á fréttina og grét allan daginn. Ég var í algjöru áfalli.“
Baldur gaf sig fram á lögreglustöðinni í Keflavík. Hann fékk að lokum sex ára fangelsisdóm og afplánaði fjögur ár.
Brotnir strákar
Hraunið. Litla-Hraun.
„Ég man þegar ég var að fara úr gæsluvarðhaldinu; ég var í gæsluvarðhaldi í um 11 daga. Ég man að verðirnir voru að segja að ég þyrfti að passa mig. Ég var kominn í vígahug að passa mig. Ég hélt að þetta væri alger dýragaður. Svo kom ég þarna inn og þá sá ég bara að þetta voru brotnir strákar eins og ég. Maður hefur oft lesið fyrirsagnir um eitthvað í blöðunum um fangelsi og svona en þó ég hafi verið á þessum stað í lífinu þá ímyndaði ég mér aldrei að ég yrði þessi fyrirsögn í einhverju blaði. Þetta er svo fjarlægt einhvern veginn. En þetta eru bara brotnir strákar eins og ég. Það sem er áhugavert í starfinu mínu í dag hjá Lausninni, fjölskyldu- og áfallamiðstöð þar sem ég er framkvæmdastjóri og vinn líka þar sem ráðgjafi og markþjálfi og hef hjálpað þúsundum manna þessi 14 ár sem ég er búinn að vera að vinna með sjálfan mig og snúa lífi mínu við, er að ég hef ekki enn hitt manneskju sem ég hef tekið viðtal við sem ég hef ekki skilið efrir að ég heyri sögu viðkomandi.“
Hann var í neyslu mestan tímann á Hrauninu. Og hann segist hafa verið þar í glæpum; að selja fíkniefni. Svo komst hann út. Var látinn laus. Frelsinu feginn.
„Það var náttúrlega rosa mikið frelsi allt í einu en að sama skapi var ég ofboðslega lasinn eftir fangelsisvistina. En þarna var ég aðalgæinn ef svo má að orði komast og allar hugmyndir sem ég fékk voru góðar og allt sem ég sagði var fyndið. Siðferði mitt fór rosalega hnignandi í fangelsisvistinni. Það var komin mikil skemmd í siðferðið af þessari fangavist sem fór rosalega illa með mig.“
Siðferði mitt fór rosalega hnignandi í fangelsisvistinni.
Hitti fjölskyldu Magnúsar heitins
Svo varð Baldur edrú árið 2007 og eignaðist trúna á Guð.
„Það sem ég upplifði strax í því var að ég þyrfti að taka ábyrgð á því sem ég gerði. Ég upplifði sterkt að ég þurfti að fyrirgefa öðrum og ég fór í það að vinna með það og tala við fólk sem ég hef brotið á og ég geri mér alveg grein fyrir því að með ævi eins og minni þá er fólk þarna úti sem ég hef brotið á sem ég hef ekki beðið afsökunar; ekki af því að ég vil það ekki heldur af því hreinlega að ég man ekki eða vissi ekki hvað það hét. Ég hef hitt alla sem hafa viljað hitta mig og tekið ábyrgð á því sem ég gerði án þess að biðja fólk endilega um að fyrirgefa mér heldur meira að taka ábyrgð á því sem ég hef gert.“
Baldur hefur hitt fjölskyldu Magnúsar sem lést eftir slagsmálin á sínum tíma. „Maður getur ekki gert neitt verra en þetta,“ segir hann og á við að verða mannsbani, „af því að einstaklingurinn er bara farinn. Ungur drengur sem hvarf í blóma lífsins.“ Baldur segir að hann hafi sagt fjölskyldu Magnúsar að hann gæti ekkert sagt eða gert sem gæti leiðrétt það sem hann gerði þeim en að hann vildi að þau vissu að hann myndi verja ævi sinni í að hjálpa öðrum til þess að sporna gegn því að fleiri svona mál komi upp.
Hann sem áður var í neyslu og sat á Litla-Hrauni vegna líkamsárásar sem varð til þess að ungur maður lést er í dag framkvæmdastjóri Lausnarinnar, fjölskyldu- og áfallamiðstöðvar. Markmið hennar er að veita einstaklingum, pörum og fjölskyldum stuðning, fræðslu, leiðsögn og þá aðstoð sem til þarf til að eignast eðlilegra og betra líf.
Ég læt líf mitt ekki lengur snúast um mig heldur snýst líf mitt um að gefa aftur til samfélagsins.
„Við fluttum Lausnina í Ármúla 40 og út um skrifstofugluggann minn sé ég gömlu eiturlyfjamiðstöðuna og vændishúsið sem ég var með við Ármúlann. Mér finnst það vera mjög táknrænt fyrir þessa endurreisn að ég er loksins kominn hringinn.“
Hann segist hafa gefið Guði líf sitt. „Ég læt líf mitt ekki lengur snúast um mig heldur snýst líf mitt um að gefa aftur til samfélagsins. Ég vil hafa áhrif á samfélagið til góðs. Einkunnarorð Lausnarinnar er „heilbrigt samfélag“ af því að ég veit að heilbrigðar fjölskyldur búa til heilbrigð börn sem byggja heilbrigt samfélag.“
Söfnun stendur yfir á Karolina-fund vegna útgáfu bókar Baldurs, Heimtur úr heljargreipum.
Viðtalið við Baldur á Mannlífinu með Reyni Traustsyni er að finna hér.