Michele Ballarin, sem ítrekað hefur lýst því yfir að hún vilji stofna nýtt flugfélag byggt á rústum WOW Air, er stödd hér á landi. Hún hefur fengið almannatengilinn Gunnar Stein Pálsson í lið með sér.
Vefsíðan Túristi.is greinir frá því að Ballarin ætli að funda með frammáfólki í íslenskri ferðaþjónustu og viðskiptalífi. Ballarin hugðist kaupa umtalsverðar eignir úr þrotatbúi WOW en kaupsamningnum var rift þar sem ekki hafði tekist að ganga frá greiðslu.
Í frétt Túrista kemur einnig fram að Ballarin hafi fengið einn þekktasta almannatengil landsins með í för með sér. Gunnar Steinn Pálsson hefur komið víða við og meðal annars unnið fyrir Ólaf Ragnar Grímsson auk þess sem hann var ráðgjafi Hannesar Smárasonar og bankastjóra Kaupþings fyrir hrun.
Gunnar Steinn var læknum innan handar í kjaradeilu þeirra við ríkið þar sem læknar tryggðu sér tuga prósenta launahækkanir, hann var sagður hafa stungið upp á því að „ræsa út bloggher“ sem höfðu það hlutverk að tala máli útrásarvíkinga eftir hrunið og þá hefur nafn hann verið bendlaður við að starfa fyrir andstæðinga þriðja orkupakkans.