Michele Roosevelt Edwards, gjarnan nefnd Ballarin, er flogin af landi brott eftir að tilboði hennar í Icelandair var hafnað. Samkvæmt heimildum Mannlífs hyggst hún fara krókaleið heim til Bandaríkjanna um Evrópu. Hún hugðist kaupa kjölfestuhlut fyrir sjö milljarða króna í Icelandair en var hafnað þar sem hún þótti ekki geta sýnt fram á getu til að standa við tilboðið. Arionbanki var bakhjarl hennar og hafði milligöngu í málinu.
Þegar í gær þótti ljóst að áhugi á útboði Icelandair væri það almennur að markmið stjórnenda félagsins myndu nást. Það kom svo á daginn. Eftir skoðun á tilboði Ballerin var ákveðið að vísa henni frá. Samkvæmt heimildum Mannlífs vildi Ballarin, sem í dag leggur áherslu á að vera kennd við Bandaríkjaforsetann Roosevelt, verða stjórnarformaður Icelandair. Viðræður milli hennar og stjórnenda Icelandair um samstarf höfðu staðið yfir síðustu vikur.
Stjórn Icelandair hefur aftur á móti hafnað tilboði Ballarin sem hljóðaði upp á sjö milljarða króna. Þátttöku Ballarin í hlutafjárútboði Icelandair er því lokið. Í ljósi viðskiptasögu Edwards hér á landi þótti ljóst að umsjónaraðilar útboðsins hafa beðið athafnakonuna um staðfestingu á greiðslugetu og þær tryggingar virðist hún ekki hafa getað veitt.
Páll Ágúst Ólafsson lögmaður hefur sinnt málefnum Ballarin í útboðsferlinu. Í samtali við Mannlíf sagðist hann ekki hafa fengið formlega höfnun frá Icelandair vegna tilboðsins. „Við vitum ekkert annað en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég er ekki tilbúinn til að trúa því fyrr en ég tek á því að tilboðinu hafi verið hafnað alfarið,“ segir Páll Ágúst.
Ballarin keypti eignir WOW air úr þrotabúi félagsins og lagði í gær fram sjö milljarða tilboð í hluti Icelandair. Útkoma Icelandair í hlutafjárútboðinu virðist talsvert farsæl þar sem umframeftirspurn var eftir hlutum í félaginu. Fyrir utan Live lífeyrissjóðinn, þar sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafði sigur í atkvæðagreiðslu, tóku allir stærstu lífeyrissjóðirnir þátt í úboðinu og söfnuðust hlutir fyrir rúma 37 milljarða króna.
Ballarin var hins vegar hafnað og hún flogin af landi brott. Hún er þekkt fyrir ævintýramennsku líkt og Viðskiptablaðið fór yfir. Þar segir af samningaviðræðum hennar við sómalska sjóræningja, afskiptum hennar í Úkraínu, flugrekstri í Djíbútí, vegaframkvæmdum í Kenýa og veitingarekstri í Virginíu-fylki. Árið 1986 reyndi hún einnig fyrir sér í stjórnmálum og bauð sig fram til þings en hafði ekki erindi sem erfiði.