Bam Margera er farinn í áfengismeðferð. Þetta er í þriðja sinn sem hann fer í meðferð.
Íslandsvinurinn og hjólabrettakappinn Bam Margera, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt með Jackass-hópnum, er farinn í áfengismeðferð í þriðja sinn. Margera ætti að vera mörgum landsmönnum kunnugur eftir heimsókn hans til landsins árið 2015. Þá rataði hann í fjölmiðla eftir að hafa lent í slagsmálum við rapparann Gísla Pálma á Secret Solstice hátíðinni.
Margera, sem hefur í gegnum tíðina talað opinskátt um baráttu sína við alkóhólisma, greindi frá því á Instagram að hann væri á leið í meðferð. Þess má geta að hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur í byrjun árs 2018 og fór þá í meðferð í kjölfarið.
Í færslu sinni á Instagram birtir hann mynd af sér með son sinn í fanginu sem er rúmlega eins árs. Í annarri færslu á Instagram þakkar hann meðal annars vinum sínum úr Jackass, þeim Steve-O og Johnny Knoxwille fyrir hjálpina við að koma honum í meðferð.
Batakveðjum og góðum ráðum hefur rignt yfir hann í gegnum Instagram síðan hann greindi frá því að hann væri á leið í meðferð.