Lögreglan greinir frá því að banaslys varð á Höfðabakka í Reykjavík í nótt; þar var ekið á gangandi vegfaranda.
Lögreglan og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka nú tildrög slyssins.
Það var klukkan hálf eitt í nótt sem tilkynning um slysið hörmulega barst.
Bifreið á leið norður Höfðabakka, nálægt Árbæjarsafninu, hafnaði á vegfarandanum, sem var karlmaður á fimmtugsaldri.
Maðurinn var fluttur á Landspítalann, en þar lést hann síðar um nóttina.
Lokað var fyrir umferð um Höfðabakka á milli Bæjarháls og Stekkjarbakka, á meðan unnið var á vettvangi.