Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.7 C
Reykjavik

Bandaríkin föst í spennitreyju Trumps

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bandarísk stjórnmál eru í spennitreyju þar sem ekkert bólar á samkomulagi á milli demókrata og repúblikana um fjárlög. Trump stendur fastur á kröfu sinni um að fá 5,7 milljarða dollara inn á fjárlög til að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó en demókratar segja það ekki koma til greina. Á sama tíma sitja um 800 þúsund ríkisstarfsmenn heima þar sem loka hefur þurft fjölda ríkisstofnana vegna skorts á fjárframlögum.

Trump ávarpaði bandarísku þjóðina á þriðjudagskvöld þar sem hann freistaði þess að afla kröfu sinni um múrinn stuðnings. Jafnvel var búist við að hann myndi lýsa yfir neyðarástandi sem myndi gera honum kleift að sneiða fram hjá þinginu og útdeila fjármunum varnarmálaráðuneytisisins beint til múrsins. Það gerði hann þó ekki, heldur dró hann upp svarta mynd af ástandinu á landamærunum og sagði að þar ætti mannúðarkrísa sér stað. Þess vegna væri brýn þörf á að reisa múr á landamærunum. Forsetinn hefur reyndar dregið í land til að reyna að þóknast demókrötum og talar nú um að reisa stálþil í stað steinveggs en það virðist engu breyta. Fjölmiðlar vestanhafs segja að ekkert nýtt hafi komið fram í máli Trumps, heldur hafi hann einfaldlega endurtekið fjölmargar rangfærslur sem hann hefur áður haft uppi um málið. Trump virtist sjálfur hafa litla sannfæringu fyrir ávarpinu því New York Times segir að Trump hafi sagt sjónvarpsmönnum fyrir útsendingu að hann teldi  ávarpið, sem og heimsókn að landamærunum í gær, engu skila en að ráðgjafar hans hafi þrýst mjög á hann.

Fjárveitingar til fjölda ríkisstofnana runnu út þann 21. desember og samkvæmt bandarískum lögum fá þær ekki fjármagn til að starfa fyrr en þingið hefur veitt til þeirra meira fé á fjárlögum. Um 800 þúsund ríkisstarfsmenn sitja því heima án þess að fá greidd laun. Það munu þeir gera þangað til samkomulag á milli flokkanna næst. Ekkert miðar á þá átt. Donald Trump hefur sagst tilbúinn að hafa stofnanirnar lokaðar í mánuði, jafnvel ár. Demókratar sem um áramótin tóku völdin í fulltrúadeildinni, hafa samþykkt frumvörp sem tryggir stofnununum fjárveitingu en til þess að þau nái í gegn að ganga þarf samþykki öldungadeildarinnar. Þar stjórna repúblikanar og hefur leiðtogi þeirra, Mitch McConnell, hafnað því að taka frumvörpin til meðferðar.

Tíminn vinnur með demókrötum í þessu máli. Kannanir sýna að meirihluti kjósenda telur Trump ábyrgan fyrir lokuninni og þingmenn innan raða repúblikana eru farnir að ókyrrast og tala jafnvel um að kjósa með frumvörpum demókrata. En óvíst er að þeir fái tækifæri til þess. Trump hefur lagt allt undir í þessari deilu og það yrði þess vegna mikill persónulegur ósigur fyrir hann ef hann fær ekki málið í gegn. Eða eins og öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham orðaði það: „Ef við förum á bak við forsetann í þessu máli yrðu það endalok forsetatíðar hans og endalok [Repúblíkana]flokksins.“

Lokunin gæti orðið sú lengsta í sögunni

Lokun ríkisstofnana hefur nú staðið yfir í 20 daga og teygi hún sig fram yfir helgi verður hún sú lengsta í sögu Bandaríkjanna. Flokkarnir höfðu náð samkomulagi á þingi fyrir áramót en Trump kom í veg fyrir að það næði í gegn að ganga þar sem það hefði ekki tryggt fjármagn til byggingu múrsins, hans helsta kosningaloforðs. Lokunin hefur ekki bara áhrif á þá 800 ríkisstarfsmenn sem annaðhvort eru sendir í leyfi eða látnir vinna án þess að fá greitt. Þannig er óvíst hvort skatturinn geti endurgreitt þeim milljónum manna sem eiga von á endurgreiðslu, þjóðgarðar eru víða lokaðir og þeir sem reiða sig á mataraðstoð frá hinu opinbera gætu setið uppi með ekki neitt innan fárra vikna. Þá sitja fjölmörg önnur mikilvæg verkefni á hakanum enda aðeins allra nauðsynlegustu verkefni innt af hendi.

- Auglýsing -

Múrinn leysir ekki öll vandamál

Bygging múrsins, eða stálþilsins eins og Trump hefur talað um undanfarið, snýst orðið að stórum hluta um egó forsetans fremur en raunverulegt notagildi enda morgunljóst að engin „mannúðarkrísa“ á sér stað á landamærunum líkt og Trump heldur fram. Þeim sem fara ólöglega yfir landamærin hefur fækkað jafnt og þétt undanfarna tvo áratugi, meirihluti þess heróíns sem streymir yfir landamærin kemur í gegnum landamærastöðvar og utanríkisráðuneytið segir engar trúverðugar vísbendingar um að grunaðir hryðjuverkamenn hafi farið ólöglega yfir landamærin, þrátt fyrir fullyrðingar forsetans um annað. Þá eru aðrar hindranir í veginum, náttúrulegar, lagalegar og efnahagslegar. Kostnaðurinn er gríðarlegur og mun lenda á bandarískum skattgreiðendum en ekki Mexíkó eins og Trump fullyrti, ríkið þarf að kaupa gríðarlegt magn lands undir múrinn og lög einstakra ríkja, svo sem Kaliforníu, flækja einnig framkvæmdina.

Íhugar að lýsa yfir neyðarástandi

- Auglýsing -

Trump gæti farið þá leið að lýsa yfir neyðarástandi til að tryggja fjármögnun múrsins. Slíkt myndi tryggja honum aukin völd umfram þau sem hann hefur dagsdaglega, meðal annars til að beina fjármunum í byggingu hernaðarmannvirkja. Múr á landamærunum gæti flokkast undir slíkt mannvirki. Slíkt er í sjálfu sér einfalt og eru allnokkur fordæmi þess að forsetar hafi lýst yfir neyðarástandi, en það hefur þá iðulega verið gert í tengslum við raunverulegar krísur og í sátt við þingið. Þótt forsetanum sé í sjálfsvald sett að lýsa yfir neyðarástandi, eitthvað sem hann hefur lýst yfir að komi vel til greina, þá hefur hann verið varaður við því þar sem andstæðingar Trumps myndu án efa láta reyna á lögmæti ákvörðunarinnar fyrir dómstólum. Þingið hefur einnig völd til að afturkalla yfirlýsingu forsetans, en til þess þyrfti samþykki beggja deilda og ólíklegt að repúblikanar í öldungadeildinni tækju afstöðu gegn forseta sínum.

Almenningsálitið gegn Trump

Sem stendur er fátt sem bendir til þess að flokkarnir og forsetinn komist að samkomulagi um að binda enda á lokunina. Demókratar hafa efni á að bíða enda sýna kannanir að meirihluti kjósenda, 51 prósent, kennir Trump um lokunina og hefur sú tala hækkað eftir því sem liðið hefur á krísuna. 32 prósent kjósenda kennir demókrötum um. Einungis þriðjungur segist styðja kröfu Trumps um að 5,7 milljörðum verði varið í byggingu múrsins þótt tillagan njóti mikils stuðnings á meðal kjósenda repúblikana. Sömuleiðis hafa vinsældir forsetans dalað frá því lokunin hófst. Demókratar hafa því engan hag af því að láta undan kröfum Trumps, rétt eins og Trump hefur engan áhuga á því að fara inn í kosningarnar 2020 án þess að hafa reist svo mikið sem einn metra af 1.600 kílómetra múrnum sem hann lofaði kjósendum sínum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -