Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Bara ein jörð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Höfundur / Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Ef þú, lesandi góður, hefur ekki enn áttað þig á því, þá styttist óðum í að samfélag manna á þessari plánetu muni verða fyrir miklum skakkaföllum og allt er það okkur sjálfum að kenna.
Nýlega kom út skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þar sem dregin er upp ansi dökk mynd af náinni framtíð. Nýjustu gögn sýna að áhrif loftslagsbreytinga eru vanáætluð og nýja myndin gerir Parísarsamkomulagið næstum því úrelt. Einungis með því að mæta ýtrustu kröfum þess samkomulags erum við að halda afleiðingunum innan þeirra marka sem mætti kalla langtímahörmungar fyrir samfélag manna á jörðinni.

Einhvern veginn verðum við að bregðast við. Það gerir ríkisstjórn Íslands með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og almennum markmiðum um að ná alþjóðlegum skuldbindingum okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni og enn fremur um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Þetta eru mjög falleg orð á blaði en það þarf ýmislegt að heppnast vel til þess að við náum á áfangastað. Það verður nefnilega seint sagt um opinberar áætlanir að þær standist, svona almennt séð.

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er alveg ágæt út af fyrir sig. Hún er vissulega bara fyrsta uppkast og sem slík ágætis viðbót í umræðuna. Það vantar hins vegar margt í hana enn þá. Umfang á minnkun útblásturs kolefna er skýrt dregið upp í skýrslunni Milljón tonn en það er alls ekki skýrt hversu mikilli minnkun útblásturs hver aðgerð ríkisstjórnarinnar skilar. Það ætti að vera lágmarkskrafa að aðgerðirnar séu umfangsmetnar til þess að það sé hægt að sjá hvort aðgerðaáætlunin geti í raun og veru skilað okkur á réttan áfangastað eða ekki.

Loftslagsmál voru rædd á LÝSU, rokkhátíð samtalsins, sem fór fram á Akureyri þann 7. og 8. september síðastliðinn. Þar buðu Píratar fólki að leggja fram hugmyndir um aðgerðir í loftslagsmálum sem yrðu síðan notaðar í þingsályktunartillögu sem yrði lögð fram á Alþingi. Fundurinn tókst vel og fjölmargar hugmyndir komu fram. Áður en þingsályktunin var hins vegar lögð fram, birtust drög að umræddri aðgerðaáætlun stjórnvalda. Í þeirri aðgerðaáætlun var að finna flestar þær hugmyndir sem fram komu á fundi okkar Pírata (enda flestar frekar augljósar leiðir til að stemma stigu við útblæstri).

Ein hugmynd kom þó fram sem vert er að skoða miklu betur en hún snýst um að verðtryggja umhverfið í gegnum kolefnisgjaldið. Það myndi þá virka þannig að sett væri fram ákveðin kolefnisvísitala sem miðaðist við þá minnkun útblásturs sem við þurfum að ná fram til ársins 2030. Ef einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir ná ekki að minnka útblástur þá hækkar kolefnisgjaldið stigvaxandi miðað við hversu miklu munar. Ef útblástur minnkar umfram vísitölu þá lækkar kolefnisgjaldið, sem ákveðin verðlaun fyrir góðan árangur. Þannig yrði umhverfið okkar verðtryggt gagnvart gegndarlausri losun gróðurhúsalofttegunda.

- Auglýsing -

Kominn tími til þess að nýta kunnáttu okkar á verðtryggingunni okkur í hag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -