Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Bára Huld lýsir samskiptum sínum við Ágúst Ólaf: „Ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, greinir frá samskiptum sínum við Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar. Hún segir yfirlýsingu hans, þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að taka sér 2 mánaða frí frá þingstörfum vegna kynferðislegrar áreitni, hafa gert mjög lítið úr því sem fram fór umrætt kvöld.

Trúnaðarráð Samfylkingarinnar áminnti Ágúst Ólaf eftir að Bára Huld tilkynnti málið til þess. Í kjölfarið sendi Ágúst Ólafur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist miður sín vegna málsins og hann hyggðist taka sér 2 mánaða frí frá þingstörfum á meðan hann skoðaði sín mál. Í yfirlýsingunni sagðist Ágúst Ólafur hafa í tvígang reynt að kyssa Báru og látið ljót orð falla þegar hún neitaði.

Bára Huld stígur í fyrsta skipti fram í tengslum við málið í yfirlýsingu sem hún birtist á vef Kjarnans. Ágúst Ólafur var áður hluthafi í Kjarnanum. Segist hún í yfirlýsingunni ekki hafa ætlað að stíga fram en í ljósi þess hversu lítið henni þótti Ágúst Ólafur gera úr umræddum atburði hafi hún kosið að tjá sína hlið á málinu.

Forsaga málsins er sú að þau Ágúst Ólafur og Bára Huld tóku saman tal á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur snemma sumars þar sem þau voru ásamt hópi fólks. Þaðan fóru þau á skrifstofu Kjarnans neðst á Laugavegi. Stóð Bára Huld í þeirri trú að þar myndu þau halda áfram samræðum en Ágúst Ólafur hafi misskilið aðstæður.

„Ágúst Ólafur reyndi ekki að kyssa mig tví­vegis heldur ítrek­að. Hann reyndi það aftur og aftur þrátt fyrir að ég hefði neitað honum og sett skýr mörk. Í hvert sinn sem ég neit­aði honum þá nið­ur­lægði hann mig með ýmsum hætti. Ágúst Ólafur yfir­gaf ekki skrif­stof­una þegar ég bað hann um það. Ég fylgdi honum á end­anum ákveðin út með þeim orðum að ég treysti mér ekki til að vera í sama rými og hann. Hann lét samt ekki segj­ast og hélt þving­andi áreitni sinni áfram í lyft­unni á leið­inni út.“

Segist Bára Huld hafa upplifað algjört varnarleysi vegna þessa. Lýsir hún upplifinu sinni þannig að hún hafi verið „algjörlega niðurlægð og gjörsamlega misboðið vegna ítrekaðra ummæla hans“ um vitsmuni hennar og útlit.

- Auglýsing -

„Næstu dagar voru mér erf­ið­ir. Ég fann fyrir kvíða og van­líðan og ég ótt­að­ist áfram að atvikið gæti haft áhrif á starfs­ör­yggi mitt. Meðal ann­ars fyllt­ist ég mik­illi van­líðan þegar ég sá hann í fjöl­miðlum eða mynd af honum á net­inu. Eins kveið ég fyrir því að rekast á hann á förnum vegi eða að þurfa starfa minna vegna að sjá eða hitta hann á þing­inu. Þetta átti eftir að vara næstu mán­uði og gerir í raun enn að vissu leyti.“

Yfirlýsing þingmannsins skrumskæld

Henni hafi fundist að hún þyrfti að skila afleiðingunum til gerandans og í því skyni sent Ágústi Ólafi tölvupóst þar sem hún lýsti upplifun sinni af samskiptum þeirra. Níu dögum síðar, eftir ítrekanir, hafi hann hringt og beðist afsökunar. Síðsumars hafi þau enn fremur hist í vitna viðurvist þar sem hann rengdi ekki frá sögn Báru Huldar og aftur beðið hana afsökunar. Hins vegar hafi henni orðið ljóst að hann ætlaði ekki að segja öðrum frá því hvað gerst hefði og þess vegna hafi hún leitað til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, sem hafi bent henni á að tilkynna málið til trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, sem og hún gerði. Trúnaðarráðið veitti Ágústi Ólafi áminningu þann 27. nóvember. Hún hafi ætlað að láta þar við sitja en yfirlýsing Ágústs Ólafs um málið hafi verið þess eðlis að hún hafi orðið að stíga fram.

- Auglýsing -

„Það er ábyrgð­ar­hlutur að senda frá sér yfir­lýs­ingu um mál sem þessi, eins og Ágúst Ólafur gerði. En ef slík yfir­lýs­ing er skrum­skæld á ein­hvern hátt er hætt við að röng og jafn­vel var­huga­verð skila­boð séu send út í sam­fé­lag­ið. Yfir­lýs­ing Ágústar Ólafs er ekki í sam­ræmi við mála­vexti. Hún gerir mun minna úr því sem átti sér stað en til­efni var til. Þetta var ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing.“

Yfirlýsingu Báru Huldar í heild má lesa hér.

Uppfært 12:21:

Stjórn og stjórnendur Kjarnans hafa lýst yfir fullum stuðningi við Báru Huld. Í yfirlýsingu segir að hegðun Ágústs Ólafs hafi verið niðrandi, óboðleg og hafi haft víðtækar afleiðingar fyrir Báru Huld, bæði persónulegar of faglegar.

„Stjórn og stjórn­endur Kjarn­ans gerðu þol­anda ljóst frá upp­hafi að hann réði ferð­inni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi rétt­ast að grípa. Eftir að fyrir lá við­ur­kenn­ing ger­anda á því sem átti sér stað, en eng­inn sýni­legur vilji til að bregð­ast við hegðun sinni með öðrum hætti, þá ákvað þol­andi að koma vit­neskju um áreitn­ina á fram­færi við stjórn­mála­flokk­inn sem ger­and­inn situr á þingi fyr­ir. Þar var mál­inu beint í far­veg nýstofn­aðrar trún­að­ar­nefnd­ar.“

Loks segir í yfirlýsingunni, sem stjórnarformaðurinn Hjálmar Gíslason undirritar, að þolandinn í málinu hafi fullan rétt á því hvort, hvenær og hvernig hann tjáir sig um umrætt atvik.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -