Ásta Hafþórsdóttir leikgervahönnuður hefur verið að gera það gott í Noregi síðustu ár og unnið þar að hverju stórverkefninu á fætur öðru. Fram undan eru ýmis spennandi verkefni.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er stórframleiðandinn HBO Nordic um þessar mundir að vinna að nýrri spennuþáttaröð með Ágústu Evu Erlendsdóttur og Jóhannesi Hauki Jóhannssyni, sem kallast Beforeigners (Fremvandrerne). Þetta er ein umfangsmesta sjónvarpsframleiðsla sem Norðmenn hafa ráðist í en þau Ágústa Eva og Jóhannes Haukur eru ekki einu Íslendingarnir sem koma að verkinu því Ásta Hafþórsdóttir leikgervahönnuður vinnur að þáttunum og í samtali við Mannlíf segir hún að hún hafi verið hvort tveggja í senn skapandi og krefjandi ferli.
„Þetta eru náttúrlega 120 leikarar og 2000 aukaleikarar, þannig að getur rétt ímyndað þér það,“ segir hún og hlær. „Fyrir utan það þá koma persónur þáttanna frá mismunandi tímabilum, alveg frá steinöld til dagsins í dag og þ.a.l. liggur heilmikil heimildavinna á bakvið útlit hverrar persónu,“ bætir hún við en í þáttunum leika Jóhannes Haukur og Ágústa Eva víkinga sem skjóta skyndilega upp kollinum í Noregi nútímans og í kjölfarið kemur í ljós að þau eru tímaflakkarar.
Þetta eru náttúrlega 120 leikarar og 2000 aukaleikarar, þannig að getur rétt ímyndað þér það
„Í framrás þáttana aðlagast þau, og fleiri persónur sem koma úr fortíðinni, samfélagi nútímans og einn hluti af minni vinnu var að sýna myndrænt hvernig það gerist, með breytingum á útliti,“ útskýrir Ásta.
Orðuð við Óskarinn
Beforeigners er ekki fyrsta stórverkefnið sem Ásta kemur nálægt því hún á að baki langan og farsælan feril í kvikmyndabransanum, bæði hér á Íslandi og í Noregi þar sem hún hefur verið búsett frá árinu 2010. Hún segir að á þeim tíma séu verkefnin í Noregi mörg hver búin að vera skemmtileg og auk þess mjög ólík, allt frá ævintýramyndum fyrir börn upp í stórslysamyndir (Bølgen/The Wave og Skjelvet). Eiginlega sé erfitt að gera upp á milli þeirra en ef hún eigi að nefna tiltekin verkefni sem standi upp úr þá séu það einna helst tvö.
Annars vegar Netflix-víkinga-þættirnir Norsemen, vegna þess hversu mikla vinna þurfti að leggja í útlit persónanna þrátt fyrir lítið fjármagn, sem hafi verið gríðarleg áskorun. Hins vegar seinni heimsstyrjaldar kvikmyndin The 12th Man (Den 12. Mann) þar sem aðalpersónan, maður á flótta undan nasistum, missir m.a. fingur og tær og léttist um heil 20 kíló sem þurfti allt að leysast með sminki.
„Ætli The 12th Man sé ekki skemmtilegasta og mest krefjandi verkefni sem ég hef nokkurn tímann tekið mér fyrir hendur,“ segir hún en þess má geta að myndin hefur hlotið góða dóma víða erlendis og hefur Ásta verið orðuð við tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir sinn hlut. Hvort sem af verður eða ekki segir hún það vera mikinn heiður, eiginlega alveg magnað bara það eitt að hún skuli koma til greina. „Ég er bara rosalega þakklát fyrir það og stolt líka.“
Saknar vina og vandamanna á Íslandi
Aðspurð hvað hafi orðið til þess að hún flutti til Noregs á sínum tíma svarar Ásta að rétt eftir hrun hafi sér boðist vinna þar við sjónvarpsþætti sem til stóð að taka í fimm mánuði og hún hafi ákveðið að láta slag standa. Upp úr því sé hún búin að hafa nóg að gera enda þyki hún fær á sínu sviði og svo hafi hún einfaldlega verið „á réttum stað á réttum tíma“ þegar góð tækifæri buðust sem hafi opnað enn fleiri dyr í bransanum.
Síðustu ár sé búið að vera brjálað að gera og nú sé tími til kominn að slaka aðeins á og njóta árangursins, velja verkefnin vel og gefa sér meiri tíma í þau. Nokkur spennandi verk séu fram undan, m.a. vinna við forleik (prequel) Norsemen og endurgerð hinnar rómuðu myndar The Emmigrants (Utvandrarna, 1971). Þess utan segist Ásta ætla að finna stund milli stríða til að sinna betur uppbyggingu eigin fyrirtækis, Makeup design studio (www.makeupdesignstudio.no) sem hún á og rekur ásamt hægri hönd sinni Dimitru Drakopoulo.
En saknar hún þess aldrei að búa og starfa á Íslandi? „Jú, ég sakna vina minna og fjölskyldu mikið, þ.m.t. „bíó-fjölskyldunnar“, sem ég vann með í fimmtán ár og fyrstu árin var ég alltaf á leiðinni heim. En svo eignaðist ég tvíbura og gat ekki hugsað mér að vera einstæð móðir í bransanum heima. Vinnuumhverfið hér úti er bara hentugra, ég þarf t.d. ekki að vera verktaki heldur get ég verið launþegi sem felur í sér mikið öryggi, vinnudagarnir eru styttri og launin betri,“ segir hún en tekur fram Íslendingar séu hins vegar meiri atvinnumenn en Norðmenn á sumum sviðum, m.a. þegar kemur að aðbúnaði starfsmanna.
Í augnablikinu er fremur ólíklegt að ég snúi heim.
„Ég þurfti t.d. að setja það sem skilyrði fyrir þessu verkefni sem ég er í núna að ég fengi smink-rútu,“ segir hún. „Svoleiðis er ekki til í Noregi.“
Ertu þá alveg búin að skjóta rótum þarna úti? „Ja maður veit náttúrlega aldrei hvað gerist en í augnablikinu er fremur ólíklegt að ég snúi heim. Mér sýnist ástandið vera erfitt fyrir marga á Íslandi,“ segir hún en kveðst svo allt eins til í að prófa að búa á einhverjum heitari stað. „Ég er alltaf að skoða þá möguleika.“