Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Bára uppljóstari vill setjast á þing: „Ég er heppin að vera þekkt út af Klausturmálinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bára Halldórsdóttir, aðgerðasinni og listakona sem vakti athygli í Klausturmálinu svokallaða þegar hún tók upp samtöl þingmanna, hyggst gefa kost á sér fyrir Sósíalistaflokkinn fyrir alþingiskosningarnar í haust.

„Ég sá í fyrra í tengslum við Covid hve hættuleg pólitík er fólki í minni stöðu í raun og veru; ég sá hvernig vissar stofnanir geta verið skaðlegar að því leyti að fólk getur ekki séð raunveruleikann. Flestir sem eru veikir eins og ég,“ segir Bára sem er með sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdóm, „hafa hvergi hljómgrunn nema í gegnum einhvers konar fjarlæg pappírsgögn einhvers staðar. Það er enginn í stjórnmálum sem hefur þessa reynslu. Þannig að þegar fólk er að búa til reglugerðir þá er oft sagt: „Hei, þið sem eruð í samtökunum sem vitið allt um þetta endilega gefið álit ykkar á þessu eða hinu.“ Sá sem les svo álitið hefur ekki vit á því hve mikilvægt það er sem hann er með í höndunum. Ég hef til dæmis séð hvað það er gott fyrir borgarstjórnina að hafa Sönnu þar inni sem hefur beina reynslu af fátækt sem ég þekki líka. Það sýnir mjög vel þörfina fyrir því að þeir sem hafa reynsluna séu innanborðs.“

Bára er spurð um draum sinn varðandi stjórnmálin.

„Ef ég mætti ráða þá væri ég ekkert að fara í stjórnmál yfir höfuð. Þetta er ekki kjöraðstaða fyrir manneskju sem þarf að díla við sjúkdóma. Ég hef orðið vitni að verstu hliðum þessa líka. Ég veit ekki einu sinni hvar ég er stödd á lista þannig að ég veit ekki einu sinni hvort ég sé í framboðssæti sem er nálægt einhverju þingsæti. Ég vil bara vinna að þessum málefnum sem eru sterkust þarna; vinna að því að leiðrétta heilbrigðis-, velferðar- og skólakerfið okkar hvort sem það er með því að vera hluti af hóp sem er að gera eitthvað eða ég sé einhvers staðar annars staðar í því. Draumurinn er að fá að vera talsmaður – sýna þeim sem ég þekki sem eru í minni stöðu fram á það að við getum tekið þátt.“

Það þarf aðeins að laga til

Segja má að Klausturmálið hafi komið Báru á kortið og nú vill hún vinna á sama vinnustað og fólkið sem sat á næsta borði við hana á Klausturbarnum.

„Mig langar að komast í málefnaþróun á Alþingi vegna þess að ég held að það sé þörf á því að fólk af öllum stigum og gerðum taki ákvarðanir þar. Ég held að málefni til dæmis öryrkja og eldra fólks komi ekki rétt út úr nefndum nema að þar vinni einstaklingar sem tengjast þeim. Ég persónulega myndi vilja bara slaka á en ég get nefnt sem dæmi að þegar maður sækir um aðstoð í kerfinu þá fylgir manni í gegnum það sérfræðingur sem þetta sama kerfi réð til þess. Það þarf aðeins að laga til. Ég er að vonast eftir að geta komið einhverjum af þeim þörfum á framfæri og ég er líka að vonast til þess að geta verið einhvers konar innblástur fyrir fólk sem heldur að það eigi ekki möguleika á þessu. Það er ekkert auðvelt fyrir manneskju í minni stöðu að koma sér á framfæri en ég er heppin að vera þekkt út af Klausturmálinu. Mér finnst það vera skylda mín að gera þetta fyrst ég get það.“

- Auglýsing -

 

Eiginkonan transkona

Bára segir að vegna sjúkdóms síns hafi hún einangrast svolítið frá samfélaginu.

- Auglýsing -

„Ég held að allir erfiðleikar styrki fólk. Ég held að allir erfiðleikar þroski fólk. Ég hélt fyrir búsáhaldabyltinguna að ég ætti enga framtíð en svo stillti ég mér upp fyrir framan Alþingishúsið í mótmælum og þá áttaði ég mig á því að ég er ófeimin og gat sparkað svolítið frá mér, vakið athygli á því sem betur mætti fara.“

Bára er gift Hröfnu Jónu Ágústsdóttur sem er transkona.

Bára Halldórsdóttir
Hjónin Bára og Hrafna.

„Konan mín er einstaklega hæfur og flottur ljósmyndari. Svo á ég barn sem er flutt að heiman og barnabarn. Þá á ég hund og tvo ketti; svona loðin börn.“

Bára er spurð hvað ástin sé í huga hennar.

„Ætli ástin sé ekki þegar maður getur hlegið og unnið úr því saman þegar eitthvað gerist sem er óhentugt, óþægileg og asnalegt. Ég get ekki ímyndað mér að það væri til staður í heiminum þar sem ég myndi ekki vilja hafa konuna mína með mér. Hún er aldrei neitt nema besta vinkona mín.“

Ég varð fyrir þó nokkru álagi vegna alls konar málsókna og kjaftæðis

Bára segist ekki hafa upplifað fordóma á Íslandi vegna sambands þeirra hjóna þó misrétti sé í kerfinu.

„Ef fólk ber virðingu fyrir þessum einstaklingum þá held ég að öllum líði vel. Ég held að þetta sé bara spurning um almenna kurteisi og hún er að mestu leyti til staðar á Íslandi. Hins vegar þegar við hugsum um ferðalag til útlanda þá veltum við því stundum fyrir okkur hvort við gætum farið á þennan staðinn eða hinn bara upp á öryggi að gera.“

Hvað með fordóma varðandi Klausturmálið. Fordóma eða reiði fólks?

„Ég varð fyrir þó nokkru álagi vegna alls konar málsókna og kjaftæðis. Það fylgdi þessu streita. Íslenska þjóðin hélt hins vegar lífi í mér þarna rétt á eftir þegar ég vissi ekki hvað myndi gerast en margir gengu upp að mér og sögðu að ég hafi gert það rétta í stöðunni. Þannig að ég er mjög glöð yfir því. Ég hef þó séð eitthvað neikvætt í kommentakerfum þar sem fólk felur sig og er kannski illa statt i lífinu. Ég fékk tvisvar sendan póst heim sem mér þótti vera óþægilegt en að mesu leyti hef ég fengið jákvæð viðbrögð þótt þetta hafi verið erfitt.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -