„Því miður er það svo að Íslendinganir eiga ekki eftir að hjálpa okkur mikið. Langstærstur hluti veltunnar er farinn, það er bara þannig og því miður eiga ferðalögin innanlands ekki eftir að hjálpa okkur nokkurn skapaðan hlut,“ segir Axel Gómez, framkvæmdastjóri Avis-bílaleigunnar.
Á meðan innlendir ferðaþjónustuaðilar vonast margir til þess að ferðalög Íslendinga innanlands í sumar komi til með að fleyta þeim í gegnum þá erfiðleika sem við blasa, þá er ljóst að það mun ekki bjarga íslensku bílaleigunum. Þær þurfa nauðsynlega á ferðamönnunum að halda og í þeirra augum er sumarið ónýtt. Bílaleigurnar reyna nú hvað þær geta til að minnka bílaflotann þeirra með því að selja bíla en í fyrra voru skráðir tæplega 22 þúsund bílaleigubílar á landinu. Bílaleigurnar koma síðan til með að leggjast í híði fram á næsta sumar.
Axel Gómez, hjá Avis, bendir á að meginhluti veltunnar hjá bílaleigunum komi inn á sumarmánuðunum fjórum. Hann segir bílaleigurnar reyna hvað þær geta til að bjóða tilboð í samstarfi við hótelin en ljóst sé að þær verði að mestu í dvala fram á næsta ár.
„Við erum bara í dvala og vonum að næsta ár verði hagstætt. Nú liggja tugþúsundir bíla á planinu. Við erum auðvitað að vona að það komi einhver útlendingur síðla sumars, þó ekki væri nema smávegis.“
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.