Baráttukonan Amal Rún Qase er látin, aðeins 57 ára að aldri. Hún féll frá laugardaginn 23. janúar og hefur útförin farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Amal Rún lætur eftir sig einn son.
Mbl.is greindi frá andláti hennar. Amal Rún fæddist í hinu stríðshrjáða landi Sómalíu árið 1963. Hún var mikil baráttukona og setti svip sinn á mannlífið í Reykjavík. Hún barðist hetjulega fyrir réttindum innflytjenda og einstæðra mæðra.
Til að reyna að koma baráttuálum sínum að bauð Amal Rún sig fram til borgarstjórnar árið 1994 fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Eftirfarandi bréf birti hún í Morgunblaðinu árið 2002, í tilefni af því að leyfa 9-15 dætrum að verja degi á vinnustað foreldra sinna, og lýsir bréfið vel baráttuanda hennar:
„Þetta stóð drengjum ekki til boða. Með þessu er verið að mismuna börnum eftir kynferði. Þá er stutt í að farið verði að mismuna þeim á annan hátt. Mér finnst þetta rangt. Karlar eru yfirleitt með hærri laun en konur en við bætum ekki fyrir það með öðru óréttlæti. Á sínum tíma hefði það ekki dugað gegn þrælahaldi svartra manna að hneppa hvíta menn í þrældóm. Það þarf að ala börnin upp við jafnrétti en ekki forréttindi. Ganga þau ekki saman í skóla? Búa þau ekki saman á heimili? Ég þekki það af eigin raun að búa við kúgun kvenna. En aldrei dytti mér í hug að úr því yrði bætt með því að innleiða kúgun karla,“ ritaði Amal Rún.
Árið 1994 barðist Alma Rún gegn ofbeldi meðal ungs fólks. Markmið barátturnnar var að vekja ungt fólk til umhugsunar um afleiðingar ofbeldis, þroska með því náungakærleika og samkennd. Þá sagði hún:
„Mótum kærleiksríka kynslóð. Við erum ein stór fjölskylda í þessu og eigum því að leysa þetta vandamál í sameiningu. Börn okkar fæðast saklaus í oft harðan heim ofbeldis, tillitsleysis og fordóma. Það er okkar að vernda þessa litlu einstaklinga, þroska þá og styðja til mennta. Þetta er kynslóðin sem mun taka við og ráða mestu um það hver framtíð bíður okkar.“