Taka þurfti barn með keisaraskurði á Landspítalanum fyrr í mánuðinu vegna alvarlegra Covid-veikinda móðurinnar. Móður og barni heilsast eftir atvikum.
Ríkisútvarpið greindi frá þessu í dag. Konan lagðist inn á gjörgæslu vegna alvarlegra Covid-veikinda og fór hún á endingu í öndunarvél.
Vegna þess hversu langt konan var komin í meðgöngunni, var ekki hægt að leggja hana á grúfu til að opna svæði aftast í lungunum eins og gert er þegar fólk með þetta alvarleg Covid-veikindi, til að laga loftskiptin. Var því ákveðið að taka barnið með keisaraskurði.
Samkvæmt Rúv er þetta í fyrsta skipti sem gripið er til þessa úrræðis hér á landi í faraldrinum en erlendis hefur þetta þekkst hjá Covid-veikum mæðrum.
Móðirin er samkvæmt Rúv ekki lengur í öndunarvel og heilsast henni og barninu eftir atvikum. Ekki vildi Landspítalinn tjá sig um málið við Rúv þegar leitað var eftir því.