Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Barnaníð grasserar á Netinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sinnuleysi, fjársvelti og ráðaleysi valda því að myndir og myndbrot sem sýna kynferðisofbeldi og pyntingar á börnum ganga kaupum og sölum á Netinu sem aldrei fyrr. Níðingarnir athafna sig á samfélagsmiðlum og myrkanetinu og leita að grófara efni í skjóli dulkóðunnar.

 

Bandarískum stjórnvöldum bárust í fyrra tilkynningar frá tæknifyrirtækjunum um 45 milljónir mynda og myndbrota af barnaníði á Netinu. Um er að ræða algjöra sprengingu en fyrir áratug voru um milljón mynda og myndbrota tilkynnt og þótti mikið. Vandann má rekja til sinnuleysis stjórnvalda, fjársveltis löggæsluaðila og ráðaleysi tæknifyrirtækjanna sem reka þá miðla þar sem hryllingurinn þrífst.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun New York Times sem birtist sl. helgi en þar segir einnig að þrátt fyrir að barnaníðsefni hafi verið framleitt og dreift fyrir tíma Internetsins, hafi samskiptamiðlar og svokallaðar skýjageymslur aukið vandann til muna. Glæpamennirnir nota VPN-tengingar til að fela slóð sína, dulkóða samskipti sín og gögn, og stunda brot sín á svokölluðu myrkaneti; undirheimum Internetsins sem hefðbundnir vafrar ná ekki til.

Myndirnar og myndbrotin eru hryllileg. Þau sýna gróf kynferðisbrot og pyntingar á börnum, sem sum hafa ekki náð leikskólaaldri. Geta níðinganna til að fara huldu höfði á Netinu veitir þeim sjálfstraust til að leita að og deila grófara efni en áður, þar sem yngri börn koma við sögu. „Sögulega séð, þá hefðir þú aldrei getað farið í svartamarkaðsverslun og sagt: Ég vil virkilega gróft efni með þriggja ára barni,“ hefur NY Times eftir Yolöndu Lippert, saksóknara í Illinois. „En nú getur þú setið nokkuð öruggur við tækið þitt og leitað að þessu; býtað fyrir þessu.“

„Sögulega séð, þá hefðir þú aldrei getað farið í svartamarkaðsverslun og sagt: Ég vil virkilega gróft efni með þriggja ára barni“

Árið 2008 samþykkti bandaríska þingið að 60 milljónum dala yrði varið árlega til að berjast gegn barnaníði á Netinu. Aðeins um helmingur þeirrar upphæðar hefur verið lagður í málaflokkinn. Þá hefur eftirfylgni með lögunum verið stórkostlega ábótavant. Löggæsluyfirvöldum skortir fjármuni og mannafla til að takast á við vandann, sem hefur leitt til þess að sums staðar hafa þau neyðst til að forgangsraða og einblína eingöngu á yngstu fórnarlömbin.

Samfélagsleg afneitun

- Auglýsing -

Tæknifyrirtækin hafa verið misdugleg í samstarfinu við löggæsluyfirvöld. Þess eru m.a. dæmi að notendum hafi verið gert viðvart að þeir hafi vakið athygli yfirvalda, sem gerði viðkomandi kleift að eyðileggja sönnunargögn áður en til kastanna kom. Langstærstur hluti tilkynninganna sem bárust yfirvöldum í fyrra, eða tveir þriðju, komu til vegna samskipta á Facebook Messenger. Fyrr á þessu ári tilkynntu forsvarsmenn samskiptamiðilsins að til stæði að dulkóða skilaboð á Messenger, sem mun gera löggæsluyfirvöldum enn erfiðara fyrir.

Í umfjöllun NY Times er m.a. fjallað um mál manns í Ohio sem var handtekinn fyrir vörslu grófs myndefnis, sem sýndi gróft kynferðisofbeldi og pyntingar á börnum. „Aðalhljóðið sem heyrist er barnið að öskra og gráta,“ sagði í skýrslu löggæsluyfirvalda um eitt myndbrotanna. Maðurinn var einn stjórnenda vefsíðunnar Love Zone en notendur hennar voru um 30 þúsund talsins. Skilyrði aðildar voru að notendur deildu eigin efni. Á síðunni var svo sérsvæði fyrir „framleiðendur“, þá sem deildu efni sem sýndi þá sjálfa brjóta gegn börnum. Þrjátíu þúsund notendur kann að virðast mikill fjöldi en löggæsluyfirvöld hafa áður lokað mun umfangsmeiri deilisíðum, þ. á m. einni sem kallaðist Child‘s Play en notendur voru sagðir fleiri en milljón.

Þeir sem hafa helgað sig baráttunni gegn barnaníði segja samfélagslega afneitun eitt stærsta vandamálið. Hryllingurinn sé svo mikill að fólk eigi hreinlega erfitt með að horfast í augu við hann. „Fólk snýr sér í burtu því spegilmyndin er svo ljót,“ segir Steven J. Grocki, hjá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.

- Auglýsing -

Ábendingalína Barnaheilla

Í nærri tvo áratugi hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi rekið ábendingalínu þar sem almenningur getur komið á framfæri upplýsingum um mögulegt barnaníðsefni á Netinu.

Ábendingalínan er rekin í samvinnu við Ríkislögreglustjóra en allar tilkynningar sem berast fara til rannsóknar hjá lögreglu. Lögregla rekur slóð efnisins, finnur út úr því hvar það er vistað og sér til þess að það sé fjarlægt.

Ábendingalína Barnaheilla tilheyrir INHOPE, alþjóðlegum regnhlífasamtökum ábendingalína. Fleiri en 46 ábendingalínur í 41 landi tilheyra samtökunum.

Frá upphafi hafa 6 þúsund tilkynningar borist í gegnum ábendingalínuna. Í fyrra töldu þær 216 en það sem af er 2019 eru þær 78. Þar af vörðuðu einhverjar hugsanlegt kynferðisofbeldi gegn börnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -