Ásmundur Einar Daðason, fráfarandi ráðherra, átti þátt í því ásamt Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu. að sviðsetja opnun meðferðarheimilis í Blönduhlíð í Mosfellsbæ örskömmu fyrir kosningar. Boðað var til blaðamannafundar þar sem ráðherrann var mættur ásamt forsvarsmönnum hins nýja heimilis. Þremur vikum síðar hefur heimilið enn ekki verið opnað.
Umrætt heimili er á svonefndu Farsældartúni þar sem unnið er að hönnun nýs þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni. Markmiðið að byggja upp miðstöð samstarfs lykilstofnana og félagasamtaka sem starfa að velferð barna. Blönduhlíð er ætlað börnum, 13-18 ára, sedm glíma við fíknivanda og tekur við verkefnum af Stuðlum.
Í dag var tekið stórt skref
Morgunblaðið, einn þeirra fjölmiðla sem voru gabbaðir, segir frá því að þremur vikum eftir sýndaropnunina sé starfsemi enn ekki hafin í húsinu. Engin starfsemi er á heimilinu í dag og hefur Barna- og fjölskyldustofa enn ekki fengið starfsleyfi fyrir Blönduhlíð.
„Í dag opnaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, meðferðarheimilið Blönduhlíð, sem staðsett er á Farsældartúni í Mosfellsbæ,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins 26. nóvember, aðeisn fjórum dögum fyrir kosningar. Á þeim tíma lá fyrir að heimilið yrði ekki opnað. Í tilkynningu á vef Farsældartúns þann sama dag var slegið á sömu strengi.
„Í dag var tekið stórt skref að því að gera Farsældartún að þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni þegar meðferðarheimilið Blönduhlíð var opnað. Meðferðarheimilið er á vegum Barna- og fjölskyldustofu og er ætlað ungmennum á aldrinum 13-18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður viðbót við greiningar- og meðferðardeild Stuðla. Með tilkomu Blönduhlíðar verður hægt að aðgreina betur börn með mismunandi vanda og veita sérhæfðari þjónustu. Börn með þyngri vanda fá áfram greiningu og meðferð á meðferðardeild Stuðla en í Blönduhlíð verður opnara úrræði er finna má á Stuðlum og verður Blönduhlíð ætluð þeim börnum og ungmennum sem glíma við vægari vanda,“ segir í tilkynningunni sem stendur enn á vef Farsældartúns.
Morgunblaðið ræddi við Funa Sigurðsson, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Barna og fjölskyldustofu, sem kveðst vona að hægt verði að opna heimilið í janúar komandi. Hann vildi þó ekki lofa neinu um það og sagði að að brunahönnuður væri að klára að hanna rýmingaráætlun og brunaúttekt. Þegar það væri afgreitt gæti heimilið fengið starfsleyfi.
Morgunblaðið spurði Funa út í orðalagið í tilkynningu ráðuneytisins, þar sem fullyrt er að meðferðarheimilið hafi verið opnað.
„Það hefði mátt vanda það betur, þannig að við værum ekki í þessari stöðu.“
Ásmundur Einar náði ekki kjöri í kosningunum.