Base Hotel á Ásbrú í Reykjanesbæ hefur verið lokað. Hótelið hefur verið rekið af félaginu TF HOT ehf. sem er í eigu Skúla Mogensen, fyrrverandi eiganda flugfélagsins WOW air, en fasteign hótelsins er í eigu TF KEF ehf., sem er einnig á vegum Skúla. Viðskiptablaðið greinir frá þessu.
Skilaboð á vef hótelsins tilkynna það að hótelinu hafi verið lokað. Í tilkynningunni er fólk beðið velvirðingar og því bent á hótel í nágrenninu, Ásbrú Hotel, B&B Hotel og START Hostel.
Viðskiptavinum, sem ætla að fara fram á endurgreiðslu, er þá bent á að hafa samband við ferðaskrifstofuna sem það verslar við eða kortafyrirtæki sitt.
Þess má geta að hótelið var opnað í júní 2016. TF KEF ehf. setti Base Hotel í söluferli í nóvember 2017 en ekkert varð af sölunni.