Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Batnað af Covid-19 og fór beint í vinnu við smitrakningar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ásta Evlalía Hrafnkelsdóttir, annars árs læknanemi við Háskóla Íslands, smitaðist af kórónaveirunni í Kaupmannahöfn helgina 6.-8. mars þar sem hún var á ferðalagi ásamt vinkonu sinni. Eftir staðfestingu á smitinu tók við tveggja vikna einangrun, einkennin urðu frekar væg og henni er nú batnað. Ásta skráði sig í bakvarðarsveitina og hefur þegar hafið vinnu hjá smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og almannavarna.

 

„Eftir þunga lotu í skólanum skelltum ég og vinkona mín úr náminu okkur í helgarferð að heimsækja vinkonu okkar sem er að læra læknisfræði í Kaupmannahafnarháskóla. Hjá læknadeildinni þar úti er hefð fyrir að halda svokallaðan Fredagsbar einu sinni í mánuði og svo skemmtilega vildi til að hann var haldinn meðan við vorum í heimsókn. Þar voru um 300 læknanemar og mjög gaman, enda vorum við þar liggur við allan daginn eða frá um 14-23. Á þriðjudeginum eftir að við komum aftur til Íslands sáum við fréttir á dönskum fréttamiðlum þess efnis að smit hefði verið á þessari samkomu og í kjölfarið gefin út þau fyrirmæli frá Kaupmannahafnarháskóla að allir sem hefðu verið þarna þyrftu að fara í tveggja vikna sóttkví.

Strax þá var vinkona mín komin með einkenni og fór samdægurs í test og á miðvikudeginum fær hún staðfest að hún sé smituð. Þá var ég komin með hita og þurran hósta svo ég hafði samband við 1700 og sagði sögu mína frá þessari ferð á barinn þar sem smit hefði komið upp og var beðin um að koma í sýnatöku daginn eftir. Starfsmaðurinn hjá 1700 lét mína heilsugæslu vita og þaðan var haft samband við mig og ég boðuð í sýnatöku, fimmtudaginn 12. mars. Þau tóku niður bílnúmerið mitt og skráðu það hjá sér. Á fimmtudeginum fór ég keyrandi á heilsugæsluna og út kom þriggja manna teymi í heilgöllum, með grímur og það er tekið hjá mér strok. Það voru notaðir tveir pinnar, þeim fyrra var stungið aftur í nefkokið, sem var ekki þægilegt, og þeim seinna aftur í munnkok. Um kvöldið fékk ég svo símtal þar sem staðfest var að ég væri með Covid-19,“ segir Ásta.  

„Á fimmtudeginum fór ég keyrandi á heilsugæsluna og út kom þriggja manna teymi í heilgöllum, með grímur og það er tekið hjá mér strok.“

Hún segist hafa verið undir það búin að fá þessar fréttir og því ekki tekið þeim illa. Það hafi þó smá saman síast inn að það væri í raun stórmerkilegt að vera ein tæplega 80 fyrstu Íslendinga til að smitast af veirunni.

„Það var ekki fyrr en vinkona mín sagði við mig „vá pældu í því þú varst að greinast með heimsfaraldur,“ sem ég var bara, „já vá, það er rosalegt!“ Ég var mjög heppin að verða lítið veik í einangruninni og er mjög þakklát fyrir það. Ég var með hita og þurran hósta fyrstu tvo dagana en á þriðja degi var ég orðin hitalaus og bara með smávægileg eymsli í hálsinum.“

Ásta Evlalía á Fredagsbar í Kaupmannarhafnarháskólanum ásamt vinkonum sínum Sylvíu Rut og Unni Láru en þarna smituðust fjölmargir af kórónaveirunni.

50 manns í sóttkví

- Auglýsing -

Þar sem Ásta og vinkona hennar mættu í verklegan tíma á mánudeginum eftir að þær komu heim frá Kaupmannahöfn þurfti allur bekkurinn þeirra, rúmlega 50 manns, að fara í sóttkví. „Eftir á hyggja sé ég eftir því að hafa farið í þennan tíma en ég var einkennalaus og hafði ekki hugmynd að ég hafði verið útsett fyrir smiti. Þar að auki var skyldumæting svo það er í rauninni ekki hægt að svekkja sig á því að hafa mætt. Mér fannst ömurlegt að verða þess valdandi að allur þessi fjöldi var sendur í sóttkví, en svo fékk enginn þeirra Covid-19 sem var mikill léttir,“ segir Ásta. 

„Við pössuðum að spritta alla fleti jafnóðum eins og klósettið, handföng og þess háttar og svo sváfum við í sitt hvoru lagi til að halda fjarlægðarmörkin.“

Hún segir að almennt finnist henni gott að vera heima hjá sér að slaka á svo henni hafi liðið nokkuð vel andlega í einangruninni.

„Ég reyndi að vera með hálfgerða rútínu þar sem ég byrjaði dagana á að læra eitthvað fram eftir degi og það var í rauninni eina markmiðið í einangruninni. Þegar ég var ekki að læra var ég bara eitthvað að slæpast, annað hvort að hanga í tölvunni eða horfa á Netflix. Ég var líka heppin að hafa Bjarna kærastann minn hjá mér, sem var í sóttkví, þannig við borðuðum alltaf kvöldmat saman og horfðum svo á þætti eða bíómynd á kvöldin. Það erfiðasta við að vera í einangrun var að mega ekki fara í göngutúr, því mér finnst fátt skemmtilegra en að fara í langan göngutúr með gott hljóðvarp í eyrunum. Þannig að ég varð alltaf frekar sár þegar Bjarni fór út í göngutúra. En svo uppgötvuðum við að ég mátti fara í bíltúr og það var gott. Annars gekk þetta vel hjá okkur, við pössuðum að spritta alla fleti jafnóðum eins og klósettið, handföng og þess háttar og svo sváfum við í sitt hvoru lagi til að halda fjarlægðarmörkin. Mesti kosturinn við að hafa hann í sóttkví hjá mér var klárlega að ég mátti ekki elda mat ofan í okkur bæði þannig Bjarni sá um alla eldamennsku,“ segir hún hlæjandi. „Síðan var reglulega hringt í okkur frá smitsjúkdómadeild Landspítalans til að kanna stöðuna á okkur báðum en Bjarni var einkennalaus allan tímann svo líklega slapp hann við smit.“

- Auglýsing -

Hvað var það fyrsta sem þú gerðir þegar þú varst laus úr einangruninni? „Ég fór beint í heimsókn til Guðrúnar frænku minnar að knúsa litlu frændsystkinin mín þau Vigdísi Örnu og Pétur Darra sem ég var búin að sakna mjög mikið. Síðan skellti ég mér í langþráðan ísbíltúr og svo í Brauð og Co.“

Meðal þess fyrsta sem Ásta gerði eftir 14 daga einangrun var að fara í gönguferð í Brauð og co með Bjarna kærastanum sínum.

Komin í smitrakningarteymið

Ásta skráði sig í bakvarðarsveitina og hóf vinnu um leið og hún lauk einangrun. „Mér ásamt öðrum nemum á heilbrigðisvísindasviði bauðst að aðstoða smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og almannavarna. Við fengum lista yfir farþega sem komu til landsins eftir 19. mars, hringjum í þá til að ganga úr skugga um að þeir viti að þeim ber skyld að fara í fjórtán daga sóttkví eftir komuna til landsins. Þetta er mikill fjöldi fólks, en það eru margir nemar sem taka þátt í þessu verkefni svo vinnan fyrir hvern og einn er ekki mikil, en þetta er samt sem áður mikil hjálp fyrir almannavarnir. Það er mjög góð tilfinning að geta hjálpað á þessum furðulegu tímum, jafnvel þótt það sé bara með að hringja nokkur símtöl,“ segir Ásta.

„Annars mæli ég með að við höldum áfram að vera skilningsrík gagnvart þessu ástandi og virðum fyrirmælin sem Alma, Víðir og Þórólfur gefa, þau eru sérfræðingarnir og vita best.“

Hún segir að námið hafi gengið nokkuð vel þrátt fyrir allt, nú sé stutt í lokaprófið og því eins gott að halda vel á spöðunum. „Það er skemmtileg tilviljun að við erum akkúrat í sýkla- og veirufræðikúrs núna þannig að maður hefur extra mikinn áhuga á námsefninu enda um fátt annað rætt í samfélaginu þessa dagana en kórónaveiruna.“ 

Hvað viltu segja við aðra sem eru í sömu stöðu? „Reynið að vera dugleg að finna ykkur eitthvað að gera, hvort sem það er að sinna núverandi áhugamálum eða finna ykkur ný. Ég mæli líka endalaust með góðum hljóðvörpum eins og Morðcastinu og Þarf alltaf að vera grín, en tíminn flýgur áfram þegar maður hlustar á svona snilld og það getur jafnvel orðið skemmtilegt að taka til heima hjá sér. Annars mæli ég með að við höldum áfram að vera skilningsrík gagnvart þessu ástandi og virðum fyrirmælin sem Alma, Víðir og Þórólfur gefa, þau eru sérfræðingarnir og vita best. Munum svo að þetta tekur allt saman endi og höldum jákvæðninni.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -