Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ísinn í Efstadal II hafður fyrir rangri sök

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Beinn vegur fram undan,“ segir Björgvin Jóhannesson ferðaþjónustubóndi í Efstadal II.

Ferðaþjónustubændur að Efstadal II hafa unnið hörðum höndum að því koma starfsemi í eðlilegt form eftir að E. coli-faraldur sem rakinn var til bæjarins braust út. Grunur lék á að smitið hefði komið úr ís sem framleiddur er á staðnum en börnin sem smituðust höfðu öll borðað ís á bænum. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er ólíklegt að ísinn hafi verið smitvaldurinn en MAST hefur tekið yfir 40 sýni í samstarfi við rekstraraðila Efstadals II. Sýnin voru tekin af matvælum og ísgerð og 25 sýni af dýrunum og umhverfi þeirra. Sú gerð E. coli (af sermisgerðinni 0026 ) sem fólkið greindist með fannst ekki í ísnum.

Björgvin Jóhannesson, einn af eigendum ferðaþjónustubæjarins, segir í samtali við Mannlíf að faraldurinn hafi verið mikið áfall fyrir alla sem að rekstrinum koma. Hann segir jafnframt að samstarf við eftirlitsaðila hafi gengið vel og nú verði að líta bjart fram á veginn.
„Við erum að fara taka lítil skref í þá átt að koma okkur af stað aftur. Ísbúðin hefur verið tekin í gegn en við gerðum smávegis breytingar á henni,“ segir Björgvin en ísbúðin var opnuð á ný 1. ágúst eftir að grænt ljós fékkst frá eftirlitsaðilum. „Við erum smátt og smátt að koma framleiðslu á okkar ís af stað aftur. Það gengur bara bærilega. Það er ekki hægt að segja annað en það að það sé mjög gott samstarf á milli okkar og þessara stofnana og þær hafa hjálpað okkur í þessu ferli og hvernig við eigum að haga okkur. Vissulega eru þetta aðstæður sem margir þekkja ekki þannig að það eru allir að læra af þessu en samstarfið hefur gengið vel.“

Ferðaþjónustan Efstadal II. Mynd/Unnur Magna

Aðspurður segir Björgvin að hann telji að smitið hafi borist úr kálfastíu á bænum en ekki úr ísnum. „Bakterían sem fannst í þeim sem veiktust fannst hvað sterkust í kálfastíunni hjá okkur en hún hefur aldrei fundist í ís eða öðrum matvælum frá okkur. Það var lengi grunur um að smitið hafi borist úr ísnum, upp í munn og niður í maga en það hefur sýnt sig að ekki þarf stóran snertiflöt til þess að smitast,“ útskýrir hann og bætir við að mikill umgangur gesta hafi verið í kálfastíunni. Þar hafi verið vinsælt að klappa dýrunum og jafnvel að leyfa þeim að sleikja hendur. „Einhverjir klappa dýrum á meðan aðrir snerta einhverja hluti og koma svo við afgreiðsluborð eða annað slíkt. Það þarf ekki meira en það.“

„Okkur er gríðarlega létt að heyra að allir sem veiktust séu að ná heilsu og að börnin eru komin heim af spítala.“

Kálfastíunni hefur verið lokað og verður líklega ekki opnuð á ný í sama formi. „Við erum búin að loka á alla snertingu en það er enn þá hægt að horfa á dýrin í gegnum glugga þannig að það verður meiri sýnileiki en minni snerting,“ segir Björgvin sem telur að nú sé búið að útiloka að smit geti borist út stíunni. Hann segir að það sé mikill léttir að börnin sem veiktust séu á batavegi. „Okkur er gríðarlega létt að heyra að allir sem veiktust eru að ná heilsu og að börnin eru komin heim af spítala. Það er auðvitað aðalatriðið í öllu þessu ferli. Okkar áfall og þær breytingar sem við höfum þurft að gera og aðlaga reksturinn að skiptir minna máli. En þegar við fréttum það að allir væru að ná heilsu þá er þetta bara beinn vegur fram undan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -