Kona réðst á mann í miðbæ Reykjavíkur í nótt og beit hann í andlitið. Var lögregla kölluð á vettvang en hlaut maðurinn stórt blæðandi sár. Konan hljóp af vettvangi en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort að lögregla hafi haft upp á henni.
Skömmu áður hafði lögregla afskipti af ölvuðum manni sem lét illa á veitingastað í hverfi 108. Manninum var gert að yfirgefa staðinn er lögregla kom á vettvang en sneri aftur eftir að lögregla fór og hélt áfram að áreita fólk. Þá var lögregla kölluð til á nýjan leik og var maðurinn handtekinn í það skiptið.
Í Hafnarfirði stöðvaði lögregla mann sem ók á 140 kílómetra hraða á klukkustund. Maðurinn stöðvaði ekki bílinn fyrr en fyrir utan heimili sitt en kom þá í ljós að lögregla hafði haft afskipti af sama manninum tæpum hálftíma áður en var hann þá kærður fyrir akstur sviptur ökuréttindum.