„Það eru fjöldatakmarkanir, grímuskylda, síðan erum við með netsölu,“ sagði Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar í viðtali við Morgunblaðið.
Landsmenn hafa haldið í þá ríku hefð að kveðja gamla árið með flugeldum og virðist engin breyting þar á þetta árið. Flugeldasala mun hefjast á morgun og því margir sem munu gera sér ferð til þess að ná sér í eina tertu eða tvær.
Otti sagði að innflutning flugeldana þetta árið hafi verið töluverð áskorun en skortur var á vörugámum, þétt sé setið um flutningsleiðir og erfitt sé að flytja vörur á milli landa. Loks hafi flugeldarnir komist á leiðarenda.
Otti staðfestir að sölustaðir munu taka tillit til sóttvarna og leggur áherslu á netsölu. Þá sé flugeldasalan gríðarlega mikilvæg fyrir björgunarsveitirnar en er hún stærsta fjáröflun þeirra og skiptir sköpum í rekstri.