Það er lenska hér að þegar frægðarmenni falla frá keppist landinn við að birta af sér myndir með þeim fallna eða segja frá snertingum við hinn látna. Einar Kristinn Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, og eiginkona hans, Sigrún Þórisdóttir hittu Benedikt páfa 16 í Vatíkaninu forðum. Það var að sögn Einars merkisviðburður fyrir páfann.
„Einn af hápunktunum í lífi Benedikts 16. páfa, sem jarðsettur er í dag, var þegar hann hitti Sigrúnu konu mína suður í Vatíkaninu í Róm, skömmu eftir að hann tók við páfadómi,“ skrifar Einar á Facebook og birtir mynd með.
Einar telur að Sigrún hafi verið einna fyrst Íslendinga að taka í hönd páfans. „Þetta var hátíðleg stund, páfinn vingjarnlegur og glaðlegur og blessaði okkur eins og vera ber við svona tækifæri,“ segir Einar. Hann getur ekki um önnur samskipti en þau að páfinn heilsaði þeim en harmar að komast ekki í jarðarför þessa kunningja síns.