Mánudagur 13. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Benný Sif farið tvisvar að gosstöðvunum þrátt fyrir hræðslu að deyja úr gasmengun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rithöfundurinn, þjóðfræðingurinn, eiginkonan og fimm barna móðirin, Benný Sif Ísleifsdóttir var undir Stækkunargleri Mannlífs í vikunni.

Það má heldur betur segja að Benný Sif hafi komið með trukki inn í jólabókaflóðið árið 2018 en þá komu út tvær bækur eftir hana, barnabókin Jólasveinarannsóknin og skáldsagan Gríma. Benný hlaut bæði Nýræktarstyrk og Íslensku hljóðbókaverðlaunin fyrir Grímu.
Í síðasta mánuði hlaut svo Hansadætur, fjórða bók Bennýjar sem kom út fyrir seinustu jól, tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins.
Benný hefur því aldeilis náð að hasla sér völl á íslenskum bókamarkaði og vonandi að þetta sé bara byrjunin hjá henni.
Mannlíf komst að því að Benný er sjúklega myrkfælin, finnst flest fólk skemmtilegt og dreymir um hús við sjóinn.

Fjölskylduhagir? Ég er gift Óskari Garðarssyni, framkvæmdastjóra Dögunar, sem er Eskfirðingur eins og ég. Við eigum fimm börn, fjórar dætur og einn son, á aldrinum 14-27 ára og búum í Salahverfinu í Kópavogi.

Menntun/atvinna? Þjóðfræðingur/rithöfundur

Uppáhalds Sjónvarpsefni?  Downton Abbey og Poldark koma strax upp í hugann, Gösta er frábær og líka Bónusfjölskyldan, hvorttveggja sænskar þáttaraðir og af íslensku efni held ég mest upp á Landann, Um land allt og allskonar þætti á N4, ég elska viðtalsþætti þar sem er ekki verið að skoða svart/hvítt innbú og spyrja hvar ljósakrónan var keypt.

Leikari? Kristbjörg Kjeld er drottningin og næst henni kemur Meryl Streep. Í karladeildinni er ég næstum búin að skipta bæði Hugh Grant og George Clooney út fyrir Omar Sy úr The Intouchables, nú nýlega í Lupin.  Og svo verð ég að nefna eiginmanninn og hans mikla leiksigur í Flæðarmálinu 1981. Eða hann yrði svekktur ef ég gerði það ekki.

- Auglýsing -

Rithöfundur? Ég á mér frekar uppáhaldsbækur en uppáhaldshöfunda og uppáhaldsbækurnar eru margar, mjög margar.

Bók eða bíó? Ég fer næstum aldrei í bíó en les mikið, enda ef það er gerð mynd eftir bók þá er hún yfirleitt mun síðri en bókin. Nema kannski Bókmennta- og kartöflubökufélagið þar sem bæði er betra. Ég ætti samt að fara oftar í bíó.

Besti matur? Eiginlega bara allt sem ég elda ekki sjálf, en ég geri samt gott lasanja, bæði venjulegt og grænmetis.

- Auglýsing -

Kók eða Pepsí? Ég drekk hvorugt, fæ nóg koffín úr kaffinu.

Fallegasti staðurinn?  Hænuvík fær að vera fulltrúi Vestfjarða og Eskifjörður fulltrúi Austfjarða, til dæmis að standa á Mjóeyrinni og horfa á Hólmatind þegar Austfjarðaþokan er víðsfjarri er dúndur. Siglufjörð verð ég líka að nefna. Eiginlega er allt fallegt sem er nálægt sjó og firðir toppa dali. Og fjöll toppa flatlendi – bókstaflega og fagurfræðilega.

Hvað er skemmtilegt?  Fólk er yfirleitt skemmtilegt, og frídagar og ferðalög og matmálstímar. Það er skemmtilegt þegar komið er upp á fjallið, þegar verkefni er lokið, þegar markmiði er náð, þegar kakan er bökuð og þegar sólin skín.

Hvað er leiðinlegt? Mér finnst mjög leiðinlegt að fara í búðina, ég er eiginlega aldrei í stuði til að fara að versla og ég veit yfirleitt aldrei hvað á að vera í matinn. Ég losna reyndar oft við að fara í búðina og sömuleiðis þarf ég sjaldan að elda en mér finnst stundum eins og það að vera fullorðin snúist aðallega um að vita hvað eigi að vera í matinn.

Hvaða flokkur? Kolvetni, ertu annars ekki að meina flokk næringarefna?

Hvaða skemmtistaður? Sko, ef ég ætti að nefna einhvern skemmtistað þyrfti ég að gúggla svo ég sleppi því bara. Nema gosstöðvarnar teljist með? Þar er stuð á kvöldin, kampavín og svona.

Hver er fyndinn? Stelpurnar í Stelpunum og stelpurnar í Þær tvær, og Saga Garðarsdóttir og fólkið mitt á fjölskylduspjallinu.

Hver er leiðinlegur? Enginn er al-leiðinlegur held ég, þetta er eins og með bækur, þær falla misvel í kramið hjá fólki en allar bækur eiga sína lesendur, bara mismarga.

Trúir þú á drauga? Já, ég er sjúklega myrkfælin. Fólk vex upp úr allskyns vitleysu en það gildir ekki um mig, ég er enn myrkfælin (og ég veit enn ekki hvað á að vera í matinn.)

Hver er draumurinn? Hús við sjóinn og covidfrítt líf og allskonar sem ég geymi fyrir mig.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári?  Fara að eldgosinu þrátt fyrir fjörugt ímyndunarafl sem býður upp á ýmsar sviðsmyndir um mögulegar hrakfarir. Mest var ég hrædd við að deyja úr gosmengun, þar á eftir að ný gossprunga gleypti mig og síðan að glóandi hraunmolar kveiktu í mér. En nú er ég búin að fara tvisvar og kom lifandi heim í bæði skiptin.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Nei, og það er mjög mikilvægt að setja sér alltaf ný markmið því annars er til lítils lifað, næsti kaffibolli, næsti göngutúr, næsta bók, eitthvað nýtt að prófa, uppgötva, læra og hlakka til.

Manstu eftir einhverjum brandara? Þegar ég var í þjóðfræðinni sat ég eitt misserið námskeið um húmor hjá Kristínu Einarsdóttur, sem er fyndin, og þann vetur kunni ég alltaf brandara og var líka fyndin en núna kann ég enga. Þannig að …

Mikilvægast í lífinu? Að elska sjálfan sig og vera ekki of skynsamur. Sjálfsástin er forsenda þess að geta elskað aðra og passlegt kæruleysi kemur í veg fyrir að allt stoppi á ofhugsun og óhóflegri fullkomnun. Stundum er best að láta bara vaða, hlæja ef það mistekst.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -