Lúðvík Jónasson framkvæmdastjóri hjá birtingarhúsinu Bestun er einn þeirra íslendinga sem eru heima hjá sér í sóttkví vegna COVID-19 veirunnar. Lúðvík var staddur ásamt fjölskyldu sinni í skíðaferðalagi á Ítalíu í lok febrúar, en öll Ítalía er nú skilgreind sem hættusvæði sökum kórónaveirunnar.
Í færslu sem Lúðvík birtir á Facebook ber hann af sér sögusagnir um að hann sé á almannafæri og biður fólk um að halda ró sinni og búa ekki til sögur eða rógburð.
„Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég hef verið í sóttkví heima hjá mér vegna covid-19 veirunnar frá því síðastliðinn sunnudag ásamt Sigrúnu og Viktor. Allar sögur um að ég hafi verið meðal almennings, í Hagkaup eða Sundlaug Garðabæjar eru ósannar,“ skrifar Lúðvík.
„Það er vel skiljanlegt í ljósi ástandsins að það fari af stað sögusagnir um flesta þá sem eru í sóttkví núna í byrjun en það er mikilvægt að fólk haldi ró sinni og missi sig ekki í umræðunni. Ég bið fólk að vera ekki að búa til sögur og rógburð sem standast enga skoðun. Hér eru allir hressir.“
Ekki náðist í Lúðvík í síma vegna málsins.
Um 400 manns eru í sóttkví á landinu öllu samkvæmt síðustu upplýsingum frá Samhæfingarstöðinni og 34 greindir með COVID-19 veiruna.