„Maður á að hugsa um næringarríkan mat og reyna að borða vel af honum og leyfa hinu að vera líka því það gerir ákveðna hluti fyrir okkur, þó það sé ekki gott næringarlega séð þá getur það verið andlega gott,“ sagði Berglind Soffía Blöndal, næringafræðingur, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Sagði hún niðurstöður úr nýrri rannsókn, sem Heilbrigðisvísindastofnun HÍ tók þátt í, benda til þess að meira máli skipti að borða nóg en að borða hollt.
Verkefnið nefnist MooDFOOD og hefur Berglind sjálf gert rannsóknir sem líkjast því töluvert. Var rannsóknarefni Berglindar, bæði í masters- og doktorsnámi, að skoða áhrif bætts mataræði á geðheilsu aldraðra. Hún segir aldraða vera þann hóp sem á erfiðast með að uppfylla orkuþörf sína og sérstaklega mikilvægt sé að þau fái nægt prótín.
„Það hefur lengi verið reynt að sýna einhver (tengsl), fókusinn hefur bara verið á að reyna að sýna fram á að ef þú borðar óhollt að þá verðurðu þunglyndur en það hefur ekki verið hægt að sýna fram á það,“ sagði Berglind og bætti við að fólk ætti að breyta afstöðu sinnar til fæðu.
Þá sagði hún fólk þurfa að hætta að flokka suman mat sem óhollan og annan sem hollan – Fókusinn eigi að vera hvort maturinn sé næringarríkur. Sem dæmi sagði hún flesta telja hamborgara óholla, í grunninn eru þeir prótín, grænmeti og brauð, sem hún sagði allt mikilvæga fæðu. Ítrekaði Berglind slæma afleiðingar „kúra“ þar sem fólk borðar kaloríuskert fæði. Sagði hún rannsóknir sýna fram á auknar líkur á þunglyndi og kvíða hjá þeim sem borða ekki nóg. „Þeir(kúrar) hafa ekki góðar afleiðingar fyrir andlega heilsu okkar.“ Aðspurð hvort sykur, hafi neikvæð áhrif á andlega líðan, sagði hún svo ekki vera. „Nei, ég myndi frekar segja að einhæft fæði hafi verstar afleiðingar.“