Föstudagur 22. nóvember, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Berglindi Festival dreymir um að nenna að gosinu einn daginn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlakonan fyndna Berglind Pétursdóttir, betur þekkt sem Berglind Festival, var undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Berglindi ættu flestir að vera farnir að þekkja, en undanfarna vetur hefur hún meðal annars birst vikulega á skjáum landsmanna í þætti Gísla Marteins Baldurssonar með bráðfyndin innslög. Annars er Berglind lærður dansari, en segist þó lítið hafa dansað eftir námið. Auk vinnu sinnar á RÚV sinnir Berglind einnig starfi kynningarstjóra Listahátíðar í Reykjavík.
Mannlíf komst að því að Berglindi finnst Ármúlinn með fallegustu stöðum landsins, hún er með eindæmum tapsár og mesta gleðin í lífi hennar er að eiga skemmtilegt barn.

Berglind Pétursdóttir

Fjölskylduhagir? Ég er að vinna með hið klassíska nútímafjölskyldudæmi með allskonar liði héðan og þaðan sem ég hitti viku og viku í senn.

Menntun/atvinna? Ég útskrifaðist sem dansari af Samtímadansbraut Listaháskóla Íslands fyrir 10 árum og hef eiginlega ekki dansað síðan. Er líka lærður jógakennari en í dag starfa ég mest við markaðssetningu á menningarviðburðum og sem sjónvarpstrúður.

Uppáhalds Sjónvarpsefni? Hinn mikli þáttur á RÚV sem Bogi Ágústsson leikur í.

Leikari? Ég get ekki gert upp á mili. Allir góðir!!!

Rithöfundur? Allir sem leggja það á sig að vera rithöfundur á Íslandi eru uppáhalds rithöfundurinn minn.

- Auglýsing -

Bók eða bíó? Bók á virkum og bíó um helgar.

Besti matur? Coocoo’s Nest er besti veitingastaður á Íslandi, svo er ég reyndar alltaf mjög hrifin af matnum í IKEA.

Kók eða Pepsí? Jájá, endilega. Ég hugsa svo oft um það þegar foreldrar mínir blönduðu kók til helminga við vatn þegar ég var lítið barn að suða um kók. Mér fannst það samt algjört æði. Alltaf gaman að fá smá kók.

- Auglýsing -

Fallegasti staðurinn? Ármúli er fallegasta gata landsins, sérstaklega ef þú hefur áhuga á fyrirtækjamerkjum lítilla íslenskra fyrirtækja.

Hvað er skemmtilegt? Elda, borða, drekka og sofa lengur.

Hvað er leiðinlegt? Ganga frá og gera skattskýrsluna.

Hvaða flokkur? 6. flokkur karla í knattspyrnudeild Vals

Hvaða skemmtistaður? Happy Hour á Vínstúkunni og vínglas eftir leikhús á Mikka Ref.

Kostir? Ég er sætust og best.

Lestir? Ég er ferlega tapsár í spilum og skammast mín geðveikt fyrir það. Svo vandræðalegt að fá tár í augun þegar maður tapar í ólsen. Er að reyna að vinna í mínum málum í samstarfi við son minn sem er nákvæmlega eins.

Hver er fyndinn? Jón Gnarr.

Hver er leiðinlegur? Mér finnst allir oftast bara geðveikt fínir. Nema sumir stundum.

Trúir þú á drauga? Ég er stundum eins og draugurinn mikli daginn eftir að ég drekk of mörg vínglös. Það er alvöru draugur, svo að já.

Stærsta augnablikið? Er ennþá að bíða eftir því. Hef til dæmis bara einu sinni unnið til verðlauna, það var fyrir snyrtilegasta herbergið á Reykjum í 6. bekk. Hér er pláss fyrir umbætur af minni hálfu.

Mestu vonbrigðin? Að flytja að heiman og fatta að lífið snýst svona 95% um að ganga frá í eldhúsinu.

Hver er draumurinn? Að nenna að fara að skoða eldgosið einn daginn.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Ég náði 60 daga streak í Duolingo í morgun, mjög ánægð með það og mínar framfarir í mínu sjálfstæða frönskunámi.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Ef maður er ekki með nein markmið verður maður aldrei fyrir vonbrigðum með sjálfan sig og þess vegna er ég alltaf ánægð með mig og minn frama.

Sorglegasta stundin? Þegar ég mætti með son minn í leikskólann og öll börnin voru að tala um hvað þau höfðu fengið í skóinn en jólasveinninn hafði gleymt að koma til okkar. :’(

Mesta gleðin? Að eiga skemmtilegt barn.

Mikilvægast í lífinu? Að vera góður við börn og dýr.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -