Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-7.8 C
Reykjavik

„Besta höfnun sem ég hef fengið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikkonan Berglind Halla Elíasdóttir útskrifaðist af sviðslistabraut Listaháskóla Íslands í vor og tekur nú þátt í fyrstu stóru leiksýningunni sinni, verkinu We Will Rock You Ísland sem frumsýnt var í Háskólabíói í gær. Berglind er alin upp í Bolunarvík og segir það hafa gefið sér gott veganesti út í lífið.

„Ég sá prufurnar fyrir söngleikinn auglýstar á Facebook og fannst lítið annað koma til greina en að fara,“ segir Berglind. „Ég var ekkert gríðarlega bjartsýn eftir fyrstu prufuna en svo fékk ég „recall“, og annað, og að lokum símtal frá Vigni leikstjóra sem bauð mér hlutverkið. Ég leik Oz en hún er uppreisnarseggur sem berst gegn yfirvaldinu í heimi þar sem frjáls hugsun og listsköpun er bönnuð. Alger töffari og hörkutól. Svo datt ég inn í aukahlutverk sem kennari í upphafi verksins sem er gaman að leika sér með líka.“

Mikill söngur er í verkinu en Berglind byrjaði fyrst að læra söng í leiklistarnáminu. „Ég kem úr „syngjandi fjölskyldu“ ef svo má að orði komast og föðurættin er mjög músíkölsk sem hefur svolítið verið minn skóli í söng og framkomu í gegnum tíðina,“ segir Berglind sem á einnig að baki píanónám frá grunn- og menntaskólaárunum. Margir flottustu leik- og söngvarar landsins taka þátt í sýningunni og Berglindi finnst mikill heiður að starfa með þeim. „Ég, eins og svo margir, ólst upp við listina þeirra þannig það er mikill heiður að fá að vinna með og kynnast þeim. Það sama er að segja um alla aðra sem koma að sýningunni. Ótrúlega flottir og miklir fagmenn hérna og orkan geggjuð. Þetta er rosalega skemmtilegt.“

„Ég, eins og svo margir, ólst upp við listina þeirra þannig það er mikill heiður að fá að vinna með og kynnast þeim.“

Öðlaðist sjálfstæði að alast upp í litlum bæ
Berglind fæddist á Ísafirði og er alin upp í Bolungarvík. Foreldrar hennar búa fyrir vestan en Berglind og systkini hennar eru nú öll farin suður, eins og sagt er. „Ég var nokkuð aktívt barn, en með grunnskólanum lærði ég á píanó, spilaði fótbolta og æfði einnig samkvæmisdans í nokkur ár. Ég útskrifaðist svo sem stúdent af náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Ísafirði, 2012. Þar tók ég að sjálfsögðu þátt í leikfélagi skólans, MORFÍs, og skólakórnum en ég fór einnig í skiptinám í eitt ár til Frakklands. Eftir stúdentspróf flutti ég suður og bý núna í Laugardalnum með kærastanum mínum, Bolla Má Bjarnasyni. Það var frábært að alast upp í Bolungarvík. Mikið frelsi og maður varð snemma frekar sjálfstæður. Það er auðvitað takmarkað framboð af tómstundum og þess háttar í svona litlu samfélagi en maður fann lítið sem ekkert fyrir því. Það kallaði líka á frjótt ímyndunarafl – að finna sér eitthvað að gera og kunna að nota umhverfið sitt.“

Eftir stúdentsprófið fór Berglind í tannsmíði en hætti fljótlega. „Ég fór í tannsmíði því ég þekkti stelpu sem hafði klárað námið og talaði um hvað verklegi hlutinn væri skemmtilegur. Það hljómaði geggjað því ég hef alltaf haft gaman af handavinnu. Ég komst svo ekki í gegnum klásus um jólin og það reyndist vera ein besta höfnun sem ég hef fengið. Ég tók nokkra valáfanga á vorönn, kláraði árið og tók svo þá ákvörðun að fara ekki í nám um haustið og fór að vinna hjá leikskólanum Grænuborg.

„Ég fór í tannsmíði því ég þekkti stelpu sem hafði klárað námið og talaði um hvað verklegi hlutinn væri skemmtilegur.“

Frá því að ég man eftir mér sagðist ég ætla að verða leikkona eða listmálari. Málið er að ég beit það í mig þegar ég var unglingur að hugmyndin um að ég gæti orðið leikkona væri fráleit þar sem ég byggi í Bolungarvík – það væri bara fólk í Reykjavík sem gæti fetað þennan veg. Það útskýrir ágætlega ástæðuna fyrir fyrsta námsárinu í HÍ. Í Grænuborg kynnist ég Evu Jóhannsdóttur, góðri vinkonu minni í dag, sem kynnti mig fyrir Kvikmyndaskólanum og ég ákvað að fara í leiklist og kvikmyndagerð. Ég kláraði þar vorið 2016 og um haustið byrjaði ég svo í leikaranámi á sviðslistabraut Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu í vor.“

We Will Rock You Ísland var frumsýnt í Háskólabíói í gær og næstu sýningar verða á morgun og 23. ágúst. „Svo voru tvær aukasýningar að detta í hús sem er bara frábært. Sýnum þá einnig síðustu helgina í ágúst og fyrstu í september. Fram undan er síðan óvissan en örugglega eitthvað dásamlegt. Ég hlakka bara til að sjá hvað framtíðin hefur að geyma,“ segir Berlind að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -