Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Besta lausnin á Brexit vandanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Grein þessi var skrifuð rétt upp úr kvöldmat í gær bandarískum tíma. Lítið grunaði höfund að óvænt útspil gæti valdið meiri titring í bresku stjórnmálum en nokkrum klukkustundum síðar var lögð fram vantrausttillaga á hendur Theresu May, frá hennar eigin flokksmönnum í breska íhaldsflokknum.

Þetta er varla það sem breska þjóðin þarf á að halda á þessum tímapunkti þegar umrót og óvissan er mikil vegna Brexit. Innanflokksátök og valdabarátta fárra einstaklinga. Það er ekki til þess fallið að leysa úr þeim hnút sem þegar er uppi vegna Brexit. Hvort May heldur velli eður ei, standa Bretar enn frammi fyrir því að leysa þurfi vandann – samning, ekki samning, nýjan samning eða nýja þjóðaratkvæðagreiðslu.

May tók ákvörðun í vikunni að kippa áætlaðri atkvæðagreiðslu um Brexit samninginn út af breska þinggólfinu. Sennilega hleypti það framkominni vantrauststillögu af stað. Það tók bresku ríkisstjórnina um eitt og hálft ár að semja við Evrópusambandið. Niðurstaðan er samningur sem fáir styðja, hvorki þeir sem vilja Brexit eða þeir vilja vera áfram í ESB. Andstæða við samninginn í þinginu kemur því frá báðum áttum, hægri og vinstri, á mismunandi forsendum. Sumir vilja vera áfram í Evrópusambandinu, og eru enn að berjast fyrir því með að vera á móti samningnum. Harðlínu Brexit hópurinn telur samninginn miðjumoð og hugnast frekar að ganga úr út sambandinu með engan samninginn.

Staðan er snúin, bæði fyrir Breta og Theresu May.

Pólitískt er staðan snúin. Bæði fyrir Breta og Theresu May sem hefur stýrt þessu fíaskói, ef svo má að orði komast. Vantrauststillagan er gott dæmi um það. Þjóðaratkvæðagreiðslan árið 2016 um útgöngu er ekki lagalega bindandi, í þröngri lagalegri merkingu mætti sniðganga hana og samninginn.

Útlit er ekki fyrir þær lyktir málsins enda er pólitísk vigt atkvæðagreiðslunnar mikil. Margir hafa talað fyrir því að þingmenn eigi að loka fyrir vitin og kjósa blint með samningnum að virðingu við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sjálfsagt veltur það á því hvað þýðingu Brexit hefur fyrir viðkomandi þingmann, en eins og komið hefur í ljósi virðast margar ólíkar skoðanir hafa verið uppi um Brexit og afleiðingar útgöngu fyrir breskt samfélag.

Í samningaviðræðum við ESB var áhersla May að stýra landamærum Breta – frjáls för fólks væri úti, líkt og eitt af fjórfrelsum innri markaðarins kveður á um. Ákvörðun ber vott um pópúlisma og er að mati höfundar óskynsamleg enda felur hún í sér að hverfa af innri markaðnum – veigamikill missir fyrir Breta.

Að öðru leyti snýst samningurinn um að halda eins nánu efnahags- og viðskiptasambandi við Breta og hægt er. Í samanburði við þann samning sem Bretar hafa nú þegar, að vera í ESB, er Brexit mun verri samningur. Bretar eru nú hluti af innri markaðnum en ekki hluti af evrunni, þeir ráða yfir sínu eigin landamæraeftirliti og fá talsvert endurgreitt af þeim fjármunum sem þeir leggja inn í sambandið. Betri díll en mörg önnur ESB lönd hafa.

- Auglýsing -

Samhengisins vegna ber að geta þess að Ísland er aðili að innri markaðnum í gegnum EES-samninginn og tekur því upp þann hluta löggjafar Evrópusambandsins sem lítur að frjálsri för fólks, svo gott sem sjálfkrafa. Í sumar hitti ég Breta sem var spenntur að heyra um EES-samninginn, eða það sem Bretar kalla norsku leiðina í pólitískri umræðu. Margir þar í landi sem tala fyrir útgöngu hafa séð okkar samning rósrauðum augum – en útskýringar þeirra eiga lítið skylt við raunveruleikann. Á Bretann runnu tvær grímur þegar ég útskýrði að það þýddi jú, aðgang að innri markaðnum en þeir myndu ekki eiga sæti við löggjafarborðið. Minn maður var fljótur að skipta um skoðun um ágæti EES samningsins. Almenn vanþekking virðist ríkja í Bretlandi um hvað EES samningurinn er í raun og veru.

Flókin ákvörðun

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Bretar standa frammi fyrir flókinni ákvörðun. Nýjustu skoðanakannanir sýna að meirihluti vill ekki þennan samning. Sá  meirihluti er tæpur og því ríkir enn talsverður klofningur hjá þjóðinni. En hverjir eru valmöguleikarnir? Ein leið er að hafna samningnum og fara út með engan samninginn. Flestir eru andvígir því og telja það verulega skaðlegt fyrir breskt samfélag. Aðrir telja að það sé hægt að semja aftur, en Angela Merkel útilokaði það í byrjun vikunnar. Ekki er ljóst hvort það yrði enn staðan ESB megin yrði ef samningnum yrði hafnað í þinginu. En í því felst mikil áhætta og Bretar stæðu uppi með engan samning.

- Auglýsing -

Önnur leið er að samþykkja samninginn eins og hann stendur, en hverfandi líkur eru fyrir því að meirihluti náist um samþykkt hans. Þess vegna frestaði May atkvæðagreiðslu í þinginu. Þriðja leiðin er að fara í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skynsamlegast leiðin til að leysa þann Brexit vandann. sem pólitíkin virðist ekki geta gert. Sú leið er ekki án hindrana. Fyrsta spurningin er: um hvað yrði spurt? Um þennan samning einangrað eða yrði spurningum bætt við um að vera áfram í ESB? Pólitík mun eflaust flækjast fyrir við gerð spurninga. Ef samningnum yrði hafnað stórt í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það líka leitt til afhroðs fyrir breska íhaldsflokkinn og til þess að almennar þingkosningar yrðu haldnar með öllu því sem fylgir, möguleg uppboð á kosningaloforðum eru fyrirséð. Umrót kann að skapist meðal þeirra sem kusu með Brexit árið 2016. Fólk kann að upplifa að lýðræðið væri sniðgengið. Margir sem kusu í Brexit kusu gegn kerfinu, önnur atkvæðagreiðsla kann að vera móðgandi fyrir þann hóp. En er það svo?

Vonandi kennir þetta samfélögum sem eru að taka fyrstu skref í þjóðaratkvæðagreiðslum að það þarf að vita hvað felst í pakkanum áður en kosið er um hann.

Er hægt að kjósa um eitthvað án þess að hafa fullnægjandi upplýsingar um hvað það þýðir? Vonandi kennir þetta samfélögum sem eru að taka fyrstu skref í þjóðaratkvæðagreiðslum að það þarf að vita hvað felst í pakkanum áður en kosið er um hann. Eðli málsins samkvæmt hefði líka verið erfitt að ná góðum samning ef kosið hefði verið um að „kíkja í pakkann“ – þannig að samningaviðræður færu fram fyrst áður en ákvörðun um útgöngu yrði lögð fyrir þjóðina. Allskonar yfirlýsingar voru hins vegar gefnar um þýðingu Brexit sem hafa reynst ósannar og margir eru brjálaðir út af.

Mislukkað óvissuferðalag

Þó óvissuferðir geti verið spennandi, er mál af þessari stærðargráðu afar óheppilegt tilraunaverkefni.  Útkoman er sú að Brexit óvissuferðalagið er mislukkað. Nú þegar kjósendur vita hvað Brexit þýðir þá er heiðarlegra að kjósa aftur sem leysir úr þessum pólitíska hnút. Persónulegt og pólitískt stolt þeirra sem leiddu málið má ekki ráða lyktum, alltof miklir hagsmunir eru í húfi. Þó Bretar töpuðu pólitísku andliti um stund væri það betra en að fara með þjóðina á verri stað en hún er þegar á. Ný forysta í breska Íhaldsflokknum breytir engu þar um, nema að tíminn tifar á meðan þeir eyða orkunni í innanflokksátökin.

Loks ber að nefna að það er þýðingarmikið að Evrópusambandið standi sterkt, ekki bara í efnahagslegu tillit Breta heldur fyrir heimsstjórnmálin og þróun þeirra. Evrópusambandið hefur verið eitt af þeim öflum sem enn heldur sönsum í alþjóðastjórnmálum. Útganga Breta hlítur að veikja sambandið. Óljóst er hvaða pólitíska stefna yrði ofan á í Bretlandi ef þeir fara, en ris stjórnmálaafla sem byggja á óttahugmyndafræði, popúlisma og þjóðernishyggju, er vond þróun. Ef Bretar enda með að vera verður það jákvætt skref fyrir alþjóðasamvinnu.

Sjá einnig: Vantrausttillaga gegn Theresu May

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -