Pistill Kolbeins Óttarsson Proppé, sem birtist á Vísi í gær, hefur vakið upp hörð viðbrögð, en pistlinum fer þingmaður Vinstri grænna yfir ástæður þess af hverju hann samþykkti ekki frumvarp Pírata um afglæpvæðingu neysluskammta fíkniefna. Er óhætt að segja að samfélagsmiðlar logi vegna skrifa þingmannsins.
„Besta leiðin til að afnema refsingar fyrir neysluskammta er að viðhalda refsingunum,“ skrifar sósíalsistaforinginn Gunnar Smári Egilsson á Facebook í morgun og beinir spjótum sínum jafnframt að Vinstri grænum. „Besta leiðin til að ganga úr NATÓ er að taka þátt í leiðtogafundum NATÓ. Besta leiðin til að vernda flóttafólk er að herða útlendingalöggjöfina. Besta leiðin til að halda auðvaldinu frá völdum er að mynda stjórn með því. Velkomin í VG.“
„Þessi grein er með nokkrum ólíkindum. Ég man eftir ungum og knáum blaðamanni á Fréttablaðinu, Kolbeini Proppé, sem gjarnan sá um litla „klippt og skorið“ dálkinn (eða hvað hann hét í FB). Sá hefði nú aldeilis dregið þingmanninn sundur og saman í háði,“ skrifar Illugi Jökulsson.
Píratinn Sara Óskarsson getur heldur ekki setið á sér. „Greinin er með aumkunarverðustu gjörningum sem ég hef orðið vitni að frá upphafi þátttöku minnar í pólitík. Bara það að stjórnarliði skuli leyfa sér það að reyna að draga þennan málaflokk, þetta umræðuefni niður á þetta ömurlega plan er til marks um þá lágkúru sem fær að þrífast óáreitt í núverandi stjórnmálamenningu Íslands,“ hefur hún meðal annars að segja um pistil Kolbeins í færslu á Facebook.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er einn þeirra sem reiddist Kolbeini og sagði honum hreinlega að „fokka sér“ á Facebook. Reyndar sá þingmaðurinn eftir að hafa tekið jafn sterkt til orða og greindi frá því í annarri færslu á Facebook-vegg sínum í gærkvöldi. En Björn Leví er þó enn ósáttur með afstöðu Kolbeins í málinu líkt og margrir aðrir eins og sjá má á meðfylgjandi ummælum.
Í pistli sínum á Vísi sagði Kolbeinn yfirborðslegan fyrirsagnalestur og þreytt pólitísk klækjabrögð Pírata einkenna umræðuna. Hann segist ennfremur vilji afglæpavæðingu. „Ríkisstjórnin hefur unnið að stefnu sinni um afglæpavæðingu, þ.e. að horfa á fíkniefnasjúklinga sem veikt fólk en ekki glæpamenn. Það er í samræmi við stjórnarsáttmálann. Risastórt skref var stigið fyrr á þessu þingi þegar frumvarp var samþykkt um neyslurými. Heilbrigðisráðherra vann það í góðu samráði við fjölmörg sem að þessum málum koma, það var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og fór svo fyrir þingið þar sem það fékk sína hefðbundnu umfjöllun. Þrátt fyrir allt þetta samráð heyrðust þær raddir að meira samráð þyrfti, vinna þyrfti málið betur. Það tel ég til marks um að þessi mál skipta okkur öll miklu máli.“
Þá sagði Kolbeinn að næsta skref væri að vinna að afglæpavæðingu neysluskammta. Heilbrigðisráðherra kæmi til með að leggja fram slíkt mál á næsta þingi. Yrði það unnið í samráði við lykilaðila í heilbrigðiskerfinu og fleiri sem þurfa að hafa aðkomu að slíkum málum.
Eins og fyrr segir er óhætt að segja að skrif Kolbeins hafi vakið upp reiði, á meðan öðrum blöskrar hversu hörðum orðum hefur verið farið um þingmanninn.