Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Betra að koma seint en aldrei á áfangastað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Verslunarmannahelgi er sú helgi ársins sem einna flestir leggja land undir fót og ferðast um þjóðvegi landsins. Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, segir að um þessa annasömu helgi sé sérstök ástæða fyrir ökumenn að fara varlega og gefa sér góðan tíma til ferðarinnar. Betra sé að koma seint en aldrei á áfangastað.

Síðast en ekki síst segir Þórhildur mikilvægt að láta allt áfengi fara úr blóðinu áður en sest er undir stýri.

Yfirfarið allan búnað
„Góð regla er að yfirfara bílinn áður en lagt er af stað,“ bendir hún á. „Athuga hvort hjólbarðar séu í lagi, þ.e. slit og loftþrýstingur. Sömuleiðis ljós og önnur öryggisatriði. Eins hvort tengivagninn sé í standi, þar á meðal festingar. Þá þarf að ganga þannig frá farangri að ekki sé hætta á að hann kastist til við árekstur eða bílveltu. Það er nefnilega ótrúlegt hvað þungi lausamuna eykst við árekstur svo jafnvel sakleysisleg kókflaska getur valdið viðbótarskaða. Fyrir utan það þurfa svo allir farþegar að sjálfsögðu að vera spenntir í belti og börnin í réttum öryggisbúnaði í aftursæti. Ef þessi atriði eru í lagi áður en ekið er af stað er mun líklegra að ferðalagið verði öruggt og ánægjulegt.“

Hvíld skiptir máli
Þórhildur segir líka mikilvægt að ökumenn séu vel hvíldir meðan á akstri stendur. „Gullna reglan er að gera hlé á akstri og stoppa á klukkutíma til tveggja tíma fresti bara til að taka smávegis hvíld, jafnvel blunda í fáeinar mínútur og ekki gera það í vegakanti heldur velja útskot, bensínstöðvar eða önnur örugg svæði þar sem hvorki okkur né öðrum stafar hætta af því. Þá er gott að hafa ekki of heitt í bílnum því mikill hiti eykur líkur á þreytu og syfju og gæta þess að nærast og drekka vatn eða aðra hollustu svo ekki sæki óþarfa þreyta á okkur á langferðum. Vel vakandi, úthvíldur og yfirvegaður ökumaður er líklegri til að geta brugðist við ef eitthvað fer úrskeiðis – hjá honum eða öðrum.“

Forðist framúrakstur
Þá er að hennar sögn mikilvægt að aka samkvæmt aðstæðum og fara ekki hraðar en leyfður hámarkshraði segir til um. „Haldið jöfnum hraða og forðist framúrakstur. Þeir sem ætla að aka fram úr mega ekki undir neinum kringumstæðum gera það þar sem heil óbrotin lína er á milli akstursstefna eða takmörkuð sýn fram á veginn. Ef ökumenn þurfa hins vegar að aka hægar þá skulu þeir haga akstri sínum þannig að auðvelt og öruggt sé að fara fram úr,“ segir hún og minnir á að ef fólk ekur með eftirvagn, eins og tjaldvagn, hjólhýsi o.fl. þá sé leyfður hámarkshraði aldrei meiri en 80 km/klst. „Ef fólk mætir stórum bíl þá getur eftirvagninn verið töluvert breiður.“

Takið tillit til aðstæðna
Ef fólk er að hjóla saman í hóp á vegi þá segir Þórhildur gott að hafa hugfast að ekki má hjóla hlið við hlið ef það veldur hættu eða töfum á umferð. „Ekki stöðva bílinn heldur á veginum til að skoða einhver náttúruundur eða taka myndir. Gætið fyllsta öryggis og akið ekki, nema það sé alveg nauðsynlegt, inni á tjaldsvæðum.“

Ekki aka undir áhrifum
Síðast en ekki síst segir Þórhildur mikilvægt að láta allt áfengi fara úr blóðinu áður en sest er undir stýri. „Ef fólk neytir áfengis verður það að gefa sér góðan tíma til að jafna sig og það tekur mun meiri tíma en við höldum að endurnýja hæfni okkar til að keyra eða allt upp í 18 klukkustundir. Verið allsgáð undir stýri, það er grundvallarregla.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -