Innipúkinn verður haldinn í 18. sinn í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina en hátíðin fer að þessu sinni fram á Grandanum. Ásgeir Guðmundsson, yfirpúki hátíðarinnar, segir að þeir sem vilji betri dagskrá, betra veður og betri nætursvefn ættu að velja Innipúkann.
„Hátíðin er fyrir mér árviss og notaleg stund. Ég hlakka mest til að öskra „uppselt“ út í kosmósinn þegar staðirnir fyllast og stemningin nær hámarki,“ segir Ásgeir en hann er þó almennt ekki innipúki sjálfur. „Ég elska náttúru landsins og útivist en finnst galið að fara í útilegu á einhverjum skilgreindum ferðahelgum þar sem fyllirí og troðningur rjúfa frið hinnar heilögu Móður Jörð.“
„…finnst galið að fara í útilegu á einhverjum skilgreindum ferðahelgum þar sem fyllirí og troðningur rjúfa frið hinnar heilögu Móður Jörð.“
Dagskráin er þéttskipuð mörgu af besta tónlistarfólki landsins og má þar nefna Auði, Daða Frey, Bjartmar Guðlaugsson, Hildi, Vök, Kæluna miklu og Jónas Sig. Aðaltónleikadagskráin fer fram á Messanum og Bryggjunni brugghúsi úti á Granda á föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld en einnig verður glæsileg dagskrá á Útipúkanum svokallaða, fyrir þá sem vilja njóta góða veðursins.
„Líkt og undanfarin ár er ókeypis á hátíðardagskrána utandyra yfir hátíðardagana, Útipúkann, og þá verða einnig gamalreyndir púka-dagskrárliðir á borð við árlegan lista- og fatamarkað. Síðustu ár hefur verið uppselt á Innipúkann og því um að gera tryggja sér miða í tíma.“
Nánari upplýsingar eru á Facebook undir Innipúkinn Festival.