Staða þeirra fjölda einstaklinga sem misstu vinnuna í fjöldauppsögnum marsmánaðar skýrist væntanlega ekki að fullu fyrr en að loknum sumarleyfum. Nýundirritaðir kjarasamningar vekja upp vonir um að niðursveiflan í efnahagslífinu verði ekki langvinn og að vinnumarkaðurinn rétti úr sér fyrr en ella.
„Við höfum verið að aðstoða fólk við að skipuleggja sig í atvinnuleitinni. Það er nokkuð um laus störf þótt það hafi heldur verið að kólna að undanförnu en við erum líka að leiðbeina fólki um nám og atvinnumöguleika erlendis,“ segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur á Vinnumálastofnun. Þangað hefur fjöldi fólks leitað eftir uppsagnahrinuna í lok mars og fékk stofnunin 80 milljóna króna aukaframlag úr ríkissjóði til að bregðast við stórauknu atvinnuleysi.
Eftir bankahrunið héldu fjölmargir Íslendingar til Norðurlanda í leit að vinnu en ólíklegt er að það sama verði uppi á teningnum núna. „Það getur hentað mörgum að fara þangað tímabundið og þar er alltaf eitthvað að finna. Það var mikill uppgangur í Noregi á sama tíma og hrunið varð hér en þetta er ekki jafnklippt og skorið núna. Það er samkeppni um sama fólkið víða – verkfræðinga, heilbrigðisstarfsfólk og tölvumenntaða – en þetta eru ekki hóparnir sem eru að missa vinnuna núna,“ segir Karl.
Fara af stað eftir sumarfrí
Fjöldi fólks hefur sömuleiðis leitað á náðir ráðningarfyrirtækja og var Hagvangur eitt þeirra fyrirtækja sem opnuðu dyr sínar fyrir starfsfólki WOW. „Við buðum upp á opið hús og það var fullur salur þar sem okkar fólk miðlaði reynslu sinni og þekkingu. Það var almennt gott hljóð í fólki,“ segir Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, sem er bjartsýn fyrir hönd þeirra sem mættu. „Þetta er flest mjög vel menntað fólk og getur gengið í þau störf sem það hefur menntað sig til. Svo er spurning með aðra sem hafa ekki að einhverju sérstöku að hverfa en það er alltaf eftirspurn eftir fólki í mennta- og heilbrigðiskerfinu.“
Þrátt fyrir skyndilegan atvinnumissi sagðist Katrín samt skynja að fólk sé rólegt yfir stöðunni. Þar spili tímasetningin inn í. „Það er stutt í páskafrí og sumarfrí mjög fljótlega eftir það, á meðan margir eru á launum á uppsagnarfresti. Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem vilja ekki vera án vinnu í einn dag en svo eru aðrir sem vilja taka sér langt sumarfrí og byrja af krafti þegar líða fer að ágúst. Þetta er sá tónn sem maður heyrir þannig að ég tel að áhrifin komi ekki að fullu í ljós fyrr en að loknum sumarleyfum.“
Kjarasamningar gefa góð fyrirheit
Hagkerfið hefur tekið að snöggkólna á undanförnum mánuðum og í ár stefnir í samdrátt landsframleiðslu í fyrsta skipti frá árinu 2011. Katrín segist vissulega hafa fundið fyrir því. „Það er alltaf eitthvað um laus störf en heilt yfir hefur það verið minna en við erum vön. Frá því kjaraviðræðurnar fóru af stað í haust hafa fyrirtæki haldið að sér höndum og svo kom stór skellur núna í mars og það setur strik í reikninginn.“
Katrín segir hins vegar að undirritun kjarasamninga í síðustu viku veki upp vonir um að bjartara sé fram undan. „Við skynjum það að þau sem reka fyrirtæki eru bjartsýn vegna þess að kjarsamningar leggjast ekki með ofurþunga á fyrirtækin. Samningarnir taka til lægstu launa og það eru allir sáttir við það. Háar hækkanir yfir línuna hefðu þýtt að margir hefðu haldið áfram að sér höndum. Þannig að ég hef trú á því að þetta leysist á farsælli hátt en margir áttu von á.“