Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, biður landsmenn um að búa sig undir að samkomubannið sem er nú í gildi verði framlengt og geti því staðið lengur en til 13. apríl.
Hann segir þó greinilegt að aðgerðir almannavarna séu að skila árangri. Þórólfur þakkar landsmönnum fyrir að leggja sitt af mörkum. „Það er ómetanlegt að sjá hvernig samfélagið allt hefur staðið saman,“ sagði hann á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra áðan.
Hann segir þetta vera langhlaup og að útlit sé fyrir að faraldrinum ljúki í maí. Hann segir þolinmæði vera mikilvæga á þessari stundu. Hann hvetur fólk til að halda áfram á sömu braut.